140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:36]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns um það hvort þörf sé á þessum aðlögunarstyrkjum get ég upplýst það að samkvæmt skýrslu Evrópusambandsins segir um rýnivinnuna, með leyfi forseta:

„Landbúnaðarstefnunni þarf að breyta í þá átt að aftengja stuðningsgreiðslur frá framleiðslu. Ísland þarf að styrkja stjórnsýsluna. Enn fremur verður að bæta söfnun úrvinnslu hagtalna í landbúnaði og hefja undirbúning að því að koma upp grunnkerfum og stofnunum til að framkvæma sameiginlegu landbúnaðarstefnuna …, sérstaklega ESB-viðurkenndri greiðslustofnun og samræmdu stjórn- og eftirlitskerfi …“

Þarna er kveðið skýrt á um það að þess er krafist að byrjað verði á úrvinnslu og söfnun hagtalna sem er forsendan fyrir því að breyta landbúnaðarkerfinu og taka upp styrkjakerfi Evrópusambandsins. (Forseti hringir.) Þess vegna er alveg hárrétt að (Forseti hringir.) Hagstofan fékk fé til að vinna þessa undirbúningsvinnu (Forseti hringir.) að kröfu Evrópusambandsins.