140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýr svör. Auðvitað er okkur ljóst að það er mikill munur í eðli sínu á því stuðningskerfi sem við höfum byggt í kringum okkar landbúnað og því stuðningskerfi sem Evrópusambandið hefur byggt upp í kringum sinn landbúnað. Til að Ísland geti orðið aðili að Evrópusambandinu er alveg ljóst að þær framleiðslutengingar sem við höfum byggt inn í búvörusamningana okkar yrðu auðvitað að hverfa frá fyrsta degi. Þessi stuðningur yrði þá af allt öðrum toga og við getum síðan rætt það efnislega hvort það sé skynsamlegt eða ekki. Ég hef mjög miklar efasemdir um það að hverfa frá þessari framleiðslutengingu.

Sömuleiðis er þarna gert ráð fyrir því að sett yrði á laggirnar þessi stóra og mikla greiðslustofnun. Eins og hv. þingmaður er að upplýsa okkur um í þessari umræðu er það sem Hagstofan vinnur núna einhvers konar módel að slíkri stofnun sem hægt væri þá að taka í notkun frá fyrsta degi. Ef bændur eiga að fá stuðning í gegnum þetta nýja fyrirkomulag verður slík stofnun (Forseti hringir.) að vera til staðar með öllum þeim breytingum sem það útheimtir.