140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:44]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Já, það er alveg einkennilegt hvernig þessum málum er fyrir komið í þinginu af hæstv. ríkisstjórn. Í fjárlögum síðasta árs sem við afgreiddum um áramótin voru skilgreindar 596 milljónir sem fyrir fram greiddir styrkir frá Evrópusambandinu. Samt erum við að ræða í dag, í maí 2012, hvort Alþingi aflétti stjórnskipulegum fyrirvara af þessum samningi. Hvernig er hægt að setja inn í fjárlög tæpar 600 milljónir sem eiga sér ekki stoð í öðrum lögum? Í þessum samningi stendur að móttökuríkið, sem er Ísland, skuli samþykkja þennan samning til að fá þessa greiðslu. Af hverju skrifar ríkisstjórnin gúmmítékka inn í fjárlögin og hefur ekki til þess lagalega heimild og er fyrst að koma með málið fram núna, eins og ég segi, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara? Er ekki ríkisstjórnin farin að tefla á tæpasta vað (Forseti hringir.) og þá þar með meiri hluti þingsins með því að samþykkja síðustu fjárlög?