140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:49]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er eiginlega hálfmiður mín eftir að hafa hlustað á umræðuna fyrr í kvöld. Ég hef þegið styrki frá Evrópusambandinu, annars vegar hef ég tekið þátt í Leonardo áætluninni og hins vegar Northern Periphery áætluninni, þótt fjármunir í því verkefni hafi fyrst og fremst komið héðan frá Íslandi en samstarfsfélagar okkar fengu styrki frá Evrópusambandinu. Þetta voru sem sagt atvinnu- og þróunarverkefni, og hið síðarnefnda mundi flokkast undir sjávarútveg eða fiskeldi. Að mínu mati tel ég að styrkirnir hafi komið þeim aðilum og fyrirtækjum sem tóku þátt í þessum verkefnum ágætlega. Það hefur hins vegar ekki breytt afstöðu minni til Evrópusambandsins.

Telur hv. þingmaður að það að þiggja þessa styrki hafi áhrif (Forseti hringir.) á afstöðu fólks til aðildar að Evrópusambandinu? Eins og hér hefur margoft komið (Forseti hringir.) fram er ég ósammála því að ganga í Evrópusambandið þrátt (Forseti hringir.) fyrir að hafa þegið styrki frá því. Er þingmaðurinn þeirrar skoðunar að styrkirnir geti (Forseti hringir.) hugsanlega haft áhrif á afstöðu fólks?