140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé alveg hægt að ræða um þessa IPA-styrki með hófstilltum hætti og ég hef freistað þess að gera það og ætla ekki að hafa stór orð um þá. Ég ætla ekki að segja að verið sé að kaupa menn til fylgis með svona styrkjum.

Það sem ég var einfaldlega að segja og vil árétta er þetta: Við Íslendingar höfum tekið þátt í margs konar styrkjaverkefnum með Evrópusambandinu eins og við þekkjum. Hv. þingmaður nefndi Leonardo áætlunina og fleira mætti nefna í þessu sambandi, t.d. byggðaverkefni eins og hv. þingmaður kom inn á. Þeim verkefnum var auðvitað ekki ætlað að stuðla að ákveðnum breytingum á stjórnsýslu okkar, eins og hv. þingmaður veit, styrkirnir til þeirra verkefna höfðu allt annan tilgang. Menn eru þar almennt talað að sækja um styrki á samkeppnislegum grundvelli.

Það sem mér finnst hins vegar svolítið sérkennilegt og ég á erfitt með að skilja er að sumir þessara styrkja sem verið er að veita í gegnum IPA til verkefna sem nefnd eru í þessum skýrslum, lúta miklu meira finnst mér að einhverri ímyndarsköpun. Þetta eru mjög góð verkefni, fín verkefni (Forseti hringir.) sem ég er viss um að mörg okkar mundu greiða atkvæði með ef hugmyndir um þau kæmu upp á þinginu. Ég tel hins vegar að þau eigi lítt skylt við hinn yfirlýsta tilgang IPA um (Forseti hringir.) að stuðla að breytingum á stjórnsýslunni til þess að aðild geti orðið að veruleika.