140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í þeirri umræðu í svari hæstv. utanríkisráðherra sem ég vísaði til og í umræðum, t.d. á vettvangi utanríkismálanefndar þar sem hefur verið rætt um IPA-styrkina, hefur verið farið mjög ítarlega yfir landsáætlunina. Það var til dæmis rætt á fundum utanríkismálanefndar í ágústmánuði 2010 áður en rammasamningurinn var gerður, nákvæmlega hvað í þessu fælist. Í landsáætluninni eru reifuð þessi verkefni eins og Hagstofan þar sem verið er að safna hagtölum. Ég vil láta það koma fram að söfnun hagtalna á vegum Hagstofunnar, m.a. í landbúnaði, er EES-mál, en hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er kannski á móti því að við séum þátttakendur í EES-samstarfinu. (Gripið fram í.)

Þarna er farið yfir verkefni hjá Matís, Náttúrufræðistofnun, Þýðingamiðstöðinni, Skrifstofu landstengiliðs, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og síðan Háskólafélagi Suðurlands, og þar kemur m.a. verkefni sem hefur verið talsvert til umræðu og gengur undir heitinu Katla jarðvangur. Það má því lesa um þetta í þeim gögnum (Forseti hringir.) sem liggja fyrir og varða þetta mál sérstaklega, m.a. á birtum þingskjölum.