140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nú ekki nýr fróðleikur fyrir mig, ég hef lesið þetta, m.a. í skýrslum hæstv. utanríkisráðherra og vísaði til þeirra í ræðu minni áðan. Og það er alveg rétt sem kemur fram varðandi Hagstofuna, að hún eigi að fá styrk til að endurbæta gerð þjóðhagsreikninga. Það er líka sagt að skortur sé á mikilvægum hagtölum sem valdi erfiðleikum við að meta stöðu einstakra atvinnugreina. Þetta kann allt saman að vera alveg hárrétt og ég ætla ekki að vefengja það, hef engar forsendur til þess.

Þá vil ég líka vísa til þess að annars staðar í skýrslu utanríkisráðherra er vísað til þess að Hagstofan hafi síðan fengið 170 millj. kr. til verkefna á sviði manntals, landbúnaðar, tölfræði og framleiðslureikninga o.s.frv. Þetta er greinilega verkefni sem byggt er á hugmyndafræði IPA og ekki verið að vísa til EES. Hluti af IPA-hugmyndafræðinni er auðvitað þeir styrkir sem veittir eru ríkjum sem hafa verið að sækja um aðild að Evrópusambandinu. (Gripið fram í: EES.) Ég vil ekki fara úr EES en margir flokksbræður hv. þingmanns voru miklir andstæðingar EES-samningsins þó að þeir séu núna orðnir (Forseti hringir.) miklir talsmenn þess að ganga í Evrópusambandið eða vilja a.m.k. fylgja mjög hart eftir samþykkt Alþingis þar að lútandi.