140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það hefur reyndar ekki bara legið fyrir frá því að skýrsla utanríkisráðherra kom fram, heldur miklu lengur, jafnvel allt frá því fyrir síðustu kosningar, að menn hafi haft uppi hugmyndir um einhvers konar samstarf við Evrópusambandið. En það sem ég er að spyrja um er hvort eitthvert samkomulag hafi verið formgert frá því að skýrsla utanríkisráðherra var gerð, hvort búið sé að gera einhvern samning og hverjir eru þá aðilar að þeim samningi og hvað felst í þeim samningi. Er komið einhvers konar samkomulag um formlegt samstarf um að Evrópusambandið láti okkur í té einhverja sérfræðiþekkingu eða aðstoð af einhverjum öðrum toga? Er þetta hluti af aðildarviðræðunum við Evrópusambandið? Tengist þetta skilyrðum þess að Ísland geti gengið þar inn? Telja menn að við séum að brjóta samkomulag um Evrópska efnahagssvæðið? Hefur eitthvert samkomulag verið gert og hvers efnis er það, hverjir eru aðilar að því? Er samkomulagið til vitnis um að við séum að hverfa frá fyrri stefnu um afnám haftanna eða er enn verið að fylgja þeirri stefnu? Ég er bara að biðja um að málið sé upplýst.