140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:36]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur ekkert verið formgert fast í þessu efni. Þetta er auðvitað hluti af okkar aðildarviðræðum ef það má verða til að hjálpa okkur að losa um gjaldeyrishöftin að leita allra leiða í því sambandi. Það hefur meðal annar komið til tals sérfræðiþekking í þeim samtölum sem hafa farið fram um þetta efni. Ég átti til dæmis samtöl í gær við Stefan Füle, stækkunarstjóra bandalagsins, þar sem þessir hlutir komu upp og þar kom fram mjög jákvæður vilji af hans hálfu til að skoða með okkur allar leiðir sem væru færar í þessu efni. Þar er meðal annars sérfræðiþekking upp á borðinu en það er ekkert skilyrði á einn eða annan hátt tengt þessu. Það er vilji þeirra að skoða með okkur hvort þeir geti með einhverjum hætti greitt fyrir því að við getum flýtt afnámi gjaldeyrishaftanna.