140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

[10:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Nú er það svo að við höfum séð glitta í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Við höfum séð glitta í lista yfir þau mál sem ríkisstjórnin vill helst klára og ég fæ ekki séð að þar sé nokkurt einasta mál sem einhverju skiptir fyrir heimilin í landinu. Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ráðherrann sé sammála mér að það sé mikilvægt að mál nr. 695, sem þingflokkur framsóknarmanna lagði fram á þingi, þar sem meðal annars er lagt til að þak verði sett á hámarkshækkun verðtryggingar, að óheimilt verði að hækka gjöld og tekjur ríkissjóðs á grunni almennrar verðlagsþróunar nema sérlög og samningar liggi að baki, að grundvöllur ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna verði endurskoðaður og Seðlabanka Íslands verði falið að setja reglur um verðtryggingarjöfnuð, þ.e. við leggjum til fjórar til sex leiðir til að taka á þeim vanda sem heimilin búa við í dag.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún hafi kynnt sér frumvarp okkar eða þetta mál sem við höfum lagt fram til að taka á þessum vanda, og hvort ráðherra sé sammála mér að það sé mikilvægt, afar mikilvægt, að þetta mál verði sett í forgang og klárað á vorþinginu.

Ástæðan fyrir því að ég legg áherslu á þetta, frú forseti, er sú að það er ekkert einasta mál á forgangslista ríkisstjórnarinnar, alla vega sem ég hef séð fram að þessu, sem skiptir verulegu máli fyrir heimilin nema það hafi farið fram hjá mér og þá biðst ég að sjálfsögðu afsökunar á því. En hér er tækifæri fyrir hæstv. forsætisráðherra til að gefa yfirlýsingu um að hún vilji leggja lóð á vogarskálar með okkur að koma með gott mál sem getur skipt sköpum fyrir heimilin.