140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

[10:40]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að framsóknarmenn hafa flutt mörg mál sem snerta hagsmuni heimilanna, eins og allir flokkar hér á þingi, og ég hygg að fá mál hafi fengið eins mikla skoðun í þinginu og skuldamál heimilanna á þessu kjörtímabili. Meðal annars hefur efnahagsnefnd þingsins farið mjög vel yfir verðtrygginguna og hvort hægt sé að finna leiðir saman til að afnema verðtrygginguna. Það hefur ekki borið árangur eins og hv. þingmaður veit. Það er til dæmis eitt af þeim málum sem þingmenn Framsóknarflokksins hafa flutt.

Varðandi skuldamálin þá erum við enn að skoða lánsveðin og það gengur mjög treglega að fá einhverja niðurstöðu í þau mál. Það er verið að skoða af mikilli alvöru leiðir til að tryggja betur stöðu heimilanna í gegnum húsnæðisbætur og barnabætur og síðan lánsveðin en ekki hefur náðst niðurstaða um neinar almennar aðgerðir. Það er raunverulega niðurstaðan þar að þær séu svo kostnaðarsamar að það mundi ekki bæta almennt hag heimilanna og ríkissjóðs, sem skiptir máli í þessu sambandi, að fara slíkar leiðir.

Auðvitað eru á forgangslista ýmis mál sem snerta almennt velferð fjölskyldna í landinu og bætt lífskjör. Ef við náum að bæta hagvöxt og ná niður atvinnuleysinu sem við erum að vinna að með ýmsum hætti, t.d. í gegnum veiðigjaldið og þá fjármuni sem þar koma og til þess að ná í gegn metnaðarfullri fjárfestingaráætlun, skiptir vissulega máli að bæta hér hagvöxtinn og ná niður atvinnuleysinu. Það er auðvitað hægt að finna á þessum lista ýmis mál sem skipta máli beint fyrir heimilin í landinu og almennt til að bæta stöðu efnahagsmála og hagvöxtinn í landinu.