140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

[10:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Miðað við ofurtrú hæstv. forsætisráðherra á veiðigjaldinu þá held ég að forsætisráðherra ætti bara að leggja til að veiðigjaldið leysi vanda Grikkja. Það er ekki þannig að hægt sé að leysa öll heimsins vandamál með veiðigjaldi og setja allt undir það þó að hæstv forsætisráðherra gefi það í skyn.

Frú forseti. Í greinargerð með því frumvarpi sem ég ræddi, mál nr. 695, stendur, með leyfi forseta:

„Því er lagt til í þessu frumvarpi að sett verði þak á hámarkshækkun verðtryggingar í því markmiði að draga úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi …“ — Síðan segir: „… óheimilt verði að hækka gjöld eða tekjur ríkissjóðs á grunni almennrar verðlagsþróunar, samanber vísitölu neysluverðs, nema sérlög eða samningar liggi þar að baki, að grundvöllur ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna verði endurskoðaður, Seðlabanka Íslands verði falið að setja lánastofnunum reglur um verðtryggingarjöfnuð, hámark veðhlutfalls og lengd lánstíma fasteigna og lóða og að efnahags- og viðskiptaráðherra vinni frumvarp um stjórn efnahagsmála …“ o.s.frv.

Ég spyr hvort hæstv. forsætisráðherra sé ekki sammála því að þetta frumvarp sé þess eðlis að mjög mikilvægt sé að það fari í gegn strax á þessu þingi.