140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

[10:43]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan fullyrði ég að skoðaðar hafa verið allar þær leiðir sem hafa komið fram og menn telja raunhæfar til að tryggja betur stöðu heimilanna og lækka skuldir þeirra og bæta greiðslugetu. Sú leið sem hv. þingmaður nefnir, að setja þak á verðtrygginguna, hefur sérstaklega verið skoðuð. Á henni hafa menn talið ýmsa annmarka, bæði mikinn kostnað sem mundi bitna á Íbúðalánasjóði og þar með ríkissjóði og bönkunum o.s.frv. Menn hafa líka talað um stjórnarskrána, að við séum þar á mjög gráu svæði, þannig að það hafa vissulega verið skoðaðar allar leiðir. Komi fram einhverjar leiðir sem menn telja að nái því markmiði að bæta stöðu heimilanna, skuldastöðu og greiðslugetu þeirra, umfram það sem ríkisstjórnin er með á sínum borðum og ekki raskar fjárhag ríkissjóðs eða Íbúðalánasjóðs þá erum við að sjálfsögðu tilbúin til að skoða þær.