140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

skýrsla um stöðu barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun.

[10:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Mig langar að hvetja hæstv. ráðherra til að reyna að flýta þessari vinnu þannig að við séum tilbúin með slíka áætlun fyrir samþykkt fjárlaga næsta haust. Ég tel málefnið mjög brýnt og við getum ekki við það unað að ekki sé ráðist í úrbætur, sérstaklega þegar þessi skýrsla liggur fyrir. Ég hvet þingheim til að kynna sér skýrsluna sem er um margt mjög merkileg því að þrátt fyrir að við eigum kannski ekki fulla vasa fjár í ríkissjóði verðum við engu að síður að halda vel utan um börnin okkar. Fyrsta skrefið er að safna saman og halda til haga þeim upplýsingum sem eru á víð og dreif í kerfinu vegna þess að lykillinn að því að ná einhverjum árangri er að vita nákvæmlega í hverju vandinn er fólginn. Vísbendingar eru um það samkvæmt skýrslunni að einhverfa sé ofgreind á Íslandi en málþroskaröskun vangreind. Það er til dæmis eitthvað sem ég tel að við verðum að horfast í augu við og reyna að taka á.