140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

forsendur fjárfestingaráætlunar 2013--2015.

[10:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar hæstv. forsætisráðherra segir að það sé farið mjög varlega í það að nýta veiðigjaldið er forsætisráðherra að tala út frá því að gengið verði um fyrirsjáanlega framtíð álíka lágt og það er í dag. Það er kjarni málsins. Það liggur þá fyrir að samkvæmt fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar gerir ríkisstjórnin ráð fyrir því að gengið verði á svipuðum slóðum eftir þrjú ár og það er núna.

Ég ítreka það sem ég var að vekja athygli á og það er þetta: Alþýðusamband Íslands segir að ef gengi íslensku krónunnar styrkist um 20% verði tekjur af veiðigjaldi í kringum 8 milljarðar og fjárfestingaráætlunin gerir síðan ráð fyrir að 6 milljarðar af veiðigjaldinu fari til fjárfestingarverkefna.

Er það þá þannig að ef gengið styrkist um 20% og tekjurnar verða 8 milljarðar verði engu að síður gert ráð fyrir að 6 milljarðar fari til fjárfestingarverkefna? Það er auðvitað þannig, hæstv. forsætisráðherra, að þetta er allt á sandi byggt eða, sem er kannski enn þá líklegra, að hæstv. ríkisstjórn gerir ráð fyrir að gengi íslensku krónunnar haldist (Forseti hringir.) álíka lágt um fyrirsjáanlega framtíð sem er þá væntanlega afrakstur stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.