140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

atkvæðagreiðsla um breytingartillögu.

[10:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Í gær fór fram atkvæðagreiðsla um að tillögur stjórnlagaráðs skyldu fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Einnig flutti hv. þm. Vigdís Hauksdóttir breytingartillögu um að þjóðin fengi að segja skoðun sína á því hvort Evrópusambandsviðræðunum skyldi áfram haldið. Það vakti athygli margra við atkvæðagreiðsluna að einstakir ráðherrar eins og til dæmis hæstv. umhverfisráðherra, sem hafði tjáð sig um málið vikunni áður þess efnis að skynsamlegt væri að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu, greiddi þessari tillögu ekki atkvæði sitt. Það vakti upp minningar um atkvæðagreiðsluna forðum daga, sumarið 2009, þegar Samfylkingin með forsætisráðherra í broddi fylkingar hafði í hótunum við samþingmenn sína þar sem menn voru látnir vita af því að ef breytingartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu næði fram að ganga yrði ríkisstjórnarsamstarfinu sjálfhætt.

Það hefur auðvitað margt breyst í Evrópu og það vakti sérstaka athygli, í ljósi þess á hvaða stað Evrópusambandsumsóknin er og hve mikið hefur breyst, hversu lítill stuðningur er við hana, að jafnvel þeir ráðherrar sem höfðu áður tjáð sig um málið með þessum hætti voru ekki tilbúnir til að styðja þessa breytingartillögu þrátt fyrir ummæli í vikunni áður. Það vakti upp þær spurningar hvort sambærilegum hótunum hefði verið beitt í gær líkt og gert var sumarið 2009. Mér leikur forvitni á því að vita hvort hæstv. forsætisráðherra hafi beitt sér með sama hætti í þessu máli. Var einstökum ráðherrum og þingmönnum VG stillt upp við vegg í málinu líkt og hæstv. forsætisráðherra gerði sumarið 2009 eins og við munum öll svo vel eftir?