140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

atkvæðagreiðsla um breytingartillögu.

[10:59]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er ekkert óvön því að mér séu lögð í munn ósönn orð og kannski ekki síst úr munni þess hv. þingmanns sem hér talaði. (Gripið fram í: Ertu að væna hann um að …?) Ég er að segja að hann sé að segja ósatt um það að ég gangi á eftir þingmönnum og segi þeim hvernig þeir eigi að greiða atkvæði. Auðvitað gera þeir það sjálfir eins og þeir vilja og ég hef ekki beitt mér á einn eða neinn hátt í þessu máli. En auðvitað er hv. þingmaður ósáttur við þá niðurstöðu sem þarna kom að því er varðar að fara með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og hv. þingmaður vill með aðildarumsókn okkar. Það var afgerandi niðurstaða í þinginu, 34:25, og meira að segja hafði formaður Sjálfstæðisflokksins það á orði að þetta væri mæling á styrkleika ríkisstjórnarinnar. Ég var mjög sátt við þá niðurstöðu sem þarna varð en ég skil vel þykkjuna sem kemur fram í málflutningi hv. þingmanns til þeirrar niðurstöðu vegna þess að þingmenn vildu heldur ekki, sem er alveg rétt, blanda Evrópusambandsaðildinni í þá atkvæðagreiðslu sem hér fór fram um það brýna verkefni að þjóðin fengi að greiða atkvæði um tillögur stjórnlagaráðs. Ég veit að hv. þingmaður er mjög súr yfir því en hann verður að taka þeirri niðurstöðu sem verður í atkvæðagreiðslu um þetta mál eins og önnur og láta það ekki endurspeglast í fýlu og depurð í ræðustól og ósannindum í garð minn sem forsætisráðherra.