140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

dagskrá fundarins.

[11:04]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa furðu minni á þeirri dagskrá þingfundar sem þingheimi er boðið upp á í dag þar sem eru Vaðlaheiðargöng og það sem að þeim lýtur. Það væri að sjálfsögðu eðlilegt og í reynd nauðsynlegt að ræða þetta mál í samhengi við samgönguáætlun.

Sérfræðingar hafa lýst því yfir að það sé afar óæskilegt að ráðast í tvenn göng í einu. Það er mjög mikilvægt að ræða þetta mál í samhengi við önnur hugsanleg jarðgöng sem hugsanlega á að flýta og láta umræður snúast um hvaða áhrif þessi göng, ef á að fara að troða þeim í gegn, hafa á aðrar hugsanlegar gangaframkvæmdir, auk þess sem hlýtur að þurfa að ræða framkvæmdir í öðrum landshlutum þegar þetta er rætt.

Auk þess verð ég að fá að segja, frú forseti, að (Forseti hringir.) að það eru mjög brýn mál sem bíða, ekki bara í umhverfis- og samgöngunefnd heldur í ýmsum öðrum nefndum líka. (Forseti hringir.) Því lýsi ég einnig furðu minni á þessari forgangsröðun (Forseti hringir.) þegar svo mörg stór mál, sem jafnvel hafa beðið vikum saman eftir að komast á dagskrá, eru enn látin bíða í þágu þessa máls.