140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Enn og aftur greiðum við atkvæði um lengd þingfundar án þess að í raun sé nokkur einasta ástæða til að vera með lengri þingfund, ekki síst vegna þess að kallað hefur verið eftir því og óskað eftir því að dagskrá næstu daga verði skýrð og stjórnarflokkarnir komi hreint fram með það hvaða mál þurfi að klára og þá sé hægt að setjast niður og áætla þann tíma sem þarf í þingið.

Nú er staðan hins vegar sú að ekki liggur enn ljóst fyrir hvaða mál við munum þurfa að klára í þinginu og þá er ljóst að ekki er ástæða til að hafa þessa kvöldfundi sem hér eru sýknt og heilagt. En ef stjórnarþingmenn og þeir sem hafa áhuga á kvöldfundum kjósa það skora ég á þá sömu að vera með okkur hinum og taka þátt í þeirri umræðu sem fer fram hér á kvöldin, því að hún er um margt mjög fróðleg fyrir þá sem kjósa að vera annars staðar en að sitja hér og hlusta á þingfundi og ég undanskil þar hv. þm. Árna Þór Sigurðsson.