140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:11]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég leyfi mér líka að gera athugasemd við þá dagskrá sem hér liggur frammi um þennan fund þegar kosningavíxill næsta árs og þingmanna Norðausturkjördæmisins er kominn sem fyrsta mál á dagskrá, sérstakt áhugamál formanns VG sem þarf að ná endurkjöri. Það hefur komið fram í öllum umsögnum um Vaðlaheiðargöng nema þeim sem eru beint frá hagsmunaaðilum málsins að þetta sé algerlega galin framkvæmd. Það verður ánægjulegt að geta bent á það allt saman á eftir í umræðunni en þetta á ekki að vera forgangsröðun mála á síðustu dögum þingsins að ég tali ekki um að þetta sé ekki rætt samhliða samgönguáætlun sem er í ferli í þinginu. Þetta eru dæmi um slæm vinnubrögð á Alþingi, léleg vinnubrögð, óskipulega vinnu sem gerir það að verkum að við erum enn einu sinni komin út í horn með dagskrá þingsins.

Ég mun styðja lengd þingfundar því að hér þarf að ræða og afgreiða mál, en það er ekki góður bragur á þessu og þetta er skýrt dæmi um (Forseti hringir.) hvers vegna þingmál vinnast ekki almennilega á þingi því að starfsemin er algerlega í molum.