140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þau rök hafa verið færð fram fyrir því að ástæða sé til að hafa þingfund lengur en þingsköp gera ráð fyrir, að það þurfi tíma til að fara í þá umræðu sem bíður. En til þess að tíminn nýtist vel og umræðan skili árangri er mjög mikilvægt að þingmenn taki þátt í henni og þar með talið að sjálfsögðu þingmenn stjórnarliðsins sem eru að reyna að koma fram þeim málum sem til stendur að ræða.

Í gær gerðist það þegar hæstv. forsætisráðherra ætlaði að fara að kynna fjárfestingaráætlun sína eða kosningastefnu að ekki voru nógu margir í salnum að mati hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. ráðherra lagði þá til að gert yrði hlé á þingfundi þangað til fleiri væru komnir í salinn til að hlýða á boðskapinn. Það sama hlýtur að gilda áfram. Nú er hæstv. forsætisráðherra búin að setja þarna ákveðið fordæmi sem ég get alveg, eins og ég gerði, tekið undir með hæstv. forsætisráðherra (Gripið fram í.) um en það sama hlýtur þá að gilda um þingið áfram að við höldum ekki fund nema menn mæti til að taka þátt í umræðum.