140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst um bókhaldslegu þættina sem hv. þingmaður nefndi. Þetta lán verður að sjálfsögðu fært til bókar og eignin á móti því eru að sjálfsögðu tekjurnar af veggjöldum sem eiga að greiða lánið upp.

Nú þekki ég ekki til þefvísi hv. þingmanns á spillingu en vænti þess að hann hafi einhverja reynslu í því. Þetta verkefni á sér langan aðdraganda, margra ára, og um það hefur verið fjallað hér á Alþingi. Alþingi tók ákvörðun um að stofna hlutafélag til þess að ráðast í þessa framkvæmd árið 2010 eftir ítarlega umfjöllun í samgöngunefnd og á Alþingi og samþykkti lög þar um. Á þeim lögum er enn þá byggt þannig að málið lyktar nú ekki af meiri spillingu en svo að það er Alþingi sjálft sem með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða ákvað að stofna til þessa félags og þessa reksturs. Það greiddu 39 þingmenn því atkvæði sitt, tveir greiddu ekki atkvæði, einn var með fjarvist og 11 voru fjarverandi.