140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er misskilningur hjá hv. þm. Merði Árnasyni að ég hafi skipt um skoðun í þessu máli. Í nefndaráliti því sem samgöngunefnd skilaði af sér árið 2010 og var til stuðnings þeim lögum sem voru síðan á endanum samþykkt í júní 2010, af m.a. hv. þm. Merði Árnasyni, segir:

„Þá felur frumvarpið í sér að félagið skuli með gjaldtöku standa undir kostnaði sem til fellur vegna þeirra verkefna er það leggur út í. Nefndin áréttar hér þennan skilning sinn …“

Þetta hefur ekkert breyst. Fjárlaganefnd gerir ráð fyrir því að verkefnið verði greitt með veggjöldum, með tekjum af þeim. Það eru enn forsendur verksins. Ég átta mig ekki alveg á því hvað liggur til grundvallar spurningu hans til mín um að ég hafi skipt um skoðun í þessu máli. Ég er nákvæmlega sömu skoðunar og ég hef verið áður og fram kemur í nefndaráliti samgöngunefndar frá 2010.