140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég treysti mér ekki til að svara því, en ég tel reyndar ekki miklar líkur á því að Vegagerðin muni stýra þessu í þann farveg að það hafi áhrif á mokstur hvernig þeir reyna að stýra umferð í gegnum Vaðlaheiðargöng. Ég held að samfélagið muni gera kröfu til þess að báðir valkostirnir verði í boði þegar að því kemur.

Það er ágætt að rifja það hér upp að á fundi hv. fjárlaganefndar með Vegagerðinni spurði ég einfaldlega þessarar spurningar: Hvað hefur breyst í meðförum verksins sem gerir að verkum að menn telja að hægt sé að fara í það með þessum hætti en ekki með svokölluðum skuggagjöldum? Þá var það mat Vegagerðarinnar að í raun og veru hefði ekkert breyst. Skoðun Vegagerðarinnar var enn alveg skýr, að þetta verkefni væri ekki hægt að framkvæma án þess að setja veggjöld eða vera með niðurgreiðslu. Mér finnst það blasa við, en það er alltaf verið að setja málin í einhvern annan búning en þau reynast vera í til að menn geti tekið ákvörðun núna. Væntanlega verða svo 90%, 80% eða 70% af núverandi þingmönnum hættir árið 2018 (Forseti hringir.) þegar standa þarf frami fyrir orðnum hlut.