140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég held að vandi ríkissjóðs sé öllum kunnur og að almennur skilningur svona heilt yfir ríki á þeirri þörf að ná niður fjárlagahalla og stemma stigu við skuldasöfnun ríkisins. Ég held að það sé höfuðforsendan fyrir því að við ræðum hér samgönguverkefni á borð við Vaðlaheiðargöng sem hafa þann ótvíræða kost að notendur greiða kostnaðinn. Til viðbótar bætist að undirbúningur þessa verks hefur staðið í mörg ár og unnt er að ráðast í verkið með tiltölulega skömmum fyrirvara.

Ef til vill er það í því ljósi að umræðan sem um þetta verkefni hefur staðið og andstaðan gegn jarðgöngunum snýst fyrst og fremst um mat á þeirri áhættu að hluti kostnaðarins geti fallið á ríkissjóð þegar fram líða stundir. Ég deili áhyggjum manna í þeim efnum. Vissulega eru allar forsendur óvissu háðar og auðvelt að stilla upp svo dapri framtíðarsýn að slíkt geti gerst. Orkuverð getur haldið áfram að hækka og dregið úr umferð. Hugsanlega verður ekki rekinn nagli í fjöl í Þingeyjarsýslum næstu áratugina. Kannski er norðausturhornið að fara í eyði og jafnvel finnst ótrúlega mörgum leiðin um Víkurskarð svo fögur að þeir vilji aldrei og muni aldrei aka um Vaðlaheiðargöng, ekki fyrir nokkurn mun. Svo geta vextir rokið upp úr öllu valdi og allt getur í rauninni orðið óhamingju Íslands að vopni.

Ég deili ekki þessari sýn. Ég er mjög bjartsýnn á framtíð norðausturhornsins. Þar býr öflugt, heiðarlegt, framsýnt fólk. Þar eru ríkar auðlindir til að vinna verðmæti úr fyrir allt þjóðarbúið og þarna búa mörg tækifæri sem við eigum að kappkosta að nýta.

Hér er jafnvel gengið svo langt að segja að sérfræðingar telji það ekki ganga upp að unnið sé að tvennum jarðgöngum á sama tíma. (GLG: Ekki æskilegt.) Ekki æskilegt. Það dæmi er væntanlega sett fram til þess að skapa einhverja spennu á milli Norðfjarðarganga og Vaðlaheiðarganga. Hvað segja menn, gekk eitthvað illa að vinna við Bolungarvíkurgöng og Héðinsfjarðargöng á sama tíma, Almannaskarð og Fáskrúðsfjarðargöng? Ég sé ekki annað en að hvor tveggja þessara tveggja spyrðubanda, ef svo má segja, í jarðagangagerð á Íslandi hafi skapað þeim sem þau nýta ásamt þjóðfélaginu öllu fullt af tækifærum og aukið alla okkar möguleika til að standa betur að málum en áður var á þessum svæðum. Ég sé ekki þá sérfræðinga hafa komið fram sem mæla gegn því þannig að við getum alveg fundið alla þá fleti á þessu máli sem við kjósum að fá og vilja og taka.

Ég skal deila áhyggjum manna af því að veikasti þátturinn í þessum áformum er endurfjármögnun lána félagsins á árinu 2018. Það eru vissulega réttmætar ábendingar og æskilegt hefði verið að fara aðra leið. Sú aðferð sem hér er viðhöfð felur vissulega í sér áhættu á því að endurfjármögnun árið 2018 verði dýrari en gerist nú um stundir og það má alveg taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram að líklega eru tækifærin til langtímafjármögnunar hvað best um þessar mundir ef ætlun og vilji stendur til þess að ná sem bestum kjörum.

Eins og ég sagði hefur umræðan um Vaðlaheiðargöngin staðið mjög lengi. Ég vil fara aðeins nánar að því máli hér síðar. Þetta er lenska varðandi allar stærri framkvæmdir, sérstaklega í samgöngumálum, einfaldlega vegna þess að um takmarkað fé er að bítast og þetta eru tímafrekar framkvæmdir, tekur langan tíma að vinna að undirbúningi þeirra o.s.frv. Ég held að flestir séu sammála um að Vaðlaheiðargöngin séu þörf framkvæmd og að sjálfsögðu má halda slíku fram um flestar aðrar samgönguframkvæmdir. Þetta er samgöngubót, bæði vegna styttingar leiðarinnar milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna og eins vegna erfiðrar vetrarfærðar um Víkurskarð.

Hér er líka rætt mikið um arðsemi samgönguframkvæmda. Ég vil þó leggja áherslu á að peningalegt mat er ekki eini mælikvarðinn sem við getum lagt á slíkar framkvæmdir, það er langur vegur frá. Ég treysti mér ekki til að leggja mat á betri tengingar byggðarlaga eða almenna uppbyggingu vegakerfisins.

Ég held að það sé ástæða til að fara aðeins yfir forsögu þessa máls einnig einfaldlega vegna þess að hér hafa menn fyrst og fremst stöðvast við árið 2010 eins og það sé árið núll í þessu verkefni. Þetta mál er búið að vera í vinnslu alllangan tíma á heimasvæði þess, í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, og hefur verið unnið að þessu af Norðlendingum frá árinu 1998 í mikilli samstöðu, í miklu samstarfi við ríkisvaldið og alla þá sem um þessi mál sýsla. En ég vil nefna það, einfaldlega vegna þess að það er nefnt í einu nefndaráliti hér og vitnað til afstöðu Eyþings gagnvart veggjaldaútreikningum, að verkefnið var yfirtekið af ríkinu árið 2007 vegna þess að þá féll úrskurður í samgönguráðuneytinu um að óheimilt væri að fela félaginu Greiðri leið að ráðast í framkvæmdir verksins. Veggjaldaklásusinn sem vitnað er í í þessu nefndaráliti stafar frá þeim tíma þegar unnið var að þessu verkefni á vegum Greiðrar leiðar og vitnað til þeirrar vinnu sem farið hafði fram á vegum þess félags en ekki eftir að ríkið tók við verkefninu alfarið þegar úrskurðað var að óheimilt væri að fela félaginu sem stofnað var af sveitarfélögum og fyrirtækjum á Norðurlandi að hafa með höndum framkvæmd þessa verks.

Ári síðar, árið 2008, nánar tiltekið 29. maí, hvað gerist þá? Þá er borin upp á Alþingi tillaga sem er viðaukatillaga við samgönguáætlun og hljóðar svo:

„Vaðlaheiðargöng. Í gildandi samgönguáætlun 2007–2010 er gert ráð fyrir að Vaðlaheiðargöng verði fjármögnuð með sérstakri fjáröflun. Nú liggur fyrir, hver sú fjáröflun er. Göngin verða fjármögnuð í einkaframkvæmd með veggjöldum, sem standa munu undir helmingi kostnaðar. Gert er ráð fyrir að hluti ríkisins í göngunum greiðist með jöfnum árlegum greiðslum eftir að framkvæmdatíma lýkur árið 2011 í 25 ár.“

Þessi tillaga er enn í samgönguáætlun. Hún var borin upp á Alþingi 29. maí 2008 og hvernig var hún afgreidd? Hún var samþykkt með 54 samhljóða atkvæðum, níu þingmenn voru fjarverandi. Og hvernig hefur Alþingi unnið úr þessari samþykkt frá þeim tíma?

Nú er árið 2012, nánar tiltekið 25. maí, með öðrum orðum það eru rétt tæp fjögur ár liðin frá því að Alþingi samþykkti þetta og enn erum við að rífast um forsendur þessa verks. Vissulega má segja að það hafi orðið ákveðin tímamót, tekinn annar vinkill í þetta árið 2010 í júní. Það kom til þannig að það miðaði hægt af ýmsum ástæðum, eðlilega. Ríkisstjórnarskipti urðu í byrjun árs 2009, hrunið kom yfir alla haustið 2008 og eðlilega hægði á verkum en þó ekki meira en svo að mælt var fyrir frumvarpi um opinberar vegaframkvæmdir í byrjun júní árið 2010. Samgöngunefnd vann málið hratt og vel og breytti frumvarpinu verulega með það að markmiði að skýrt kæmi fram um hvaða framkvæmdir væri að ræða, hvernig aðkoma ríkisins að þeim yrði. Nefndin, samgöngunefnd þess tíma, lagði síðan fram einum rómi breytt frumvarp. Það samþykkti Alþingi 10. júní 2010 um stofnun hlutafélaga, annars vegar hlutafélags um breikkun vega í kringum höfuðborgarsvæðið og hins vegar um gerð Vaðlaheiðarganga.

Í framhaldi af þessu hófu fulltrúar ríkisins viðræður við íslenska lífeyrissjóði um fjármögnun þessara verkefna og upp úr þeim slitnaði í desember 2010. Í kjölfarið á þeim viðræðuslitum ákváðu stjórnvöld að halda áfram undirbúningi að gerð Vaðlaheiðarganga á þeim forsendum að verkefnið yrði fjármagnað af ríkissjóði með láni til félags sem stofnað yrði með það að markmiði að standa undir kostnaði við gerð ganganna. Ríkisstjórnin staðfesti þennan vilja og þessa vinnuáætlun 10. desember 2010, og öll vinnan frá því í desember 2010 af hálfu ríkisstjórnar Íslands og raunar þingsins hefur miðað við þessa samþykkt og eftir henni hefur verið unnið.

Það staðfestist til dæmis í þessum sal í desember 2010, sex dögum eftir að þessi samþykkt var gerð í ríkisstjórn, og hvernig var það staðfest? Þá samþykkti Alþingi í 5. gr. fjárlaga heimild til fjármálaráðherra um að endurlána allt að 6 milljarða kr. til samgönguverkefna. Svo tala menn í þessum sal eins og þetta sé nýr veruleiki. Í kjölfarið og á grunni þessarar samþykktar vann svo innanríkisráðherra og fylgdi eftir ákvörðunum Alþingis og ríkisstjórnar strax í janúar 2011 og lýsti því yfir á opnum fundi, m.a. á Akureyri, að næstu skref yrðu tekin samkvæmt þessari samþykkt Alþingis. Ef ekki er hægt að vinna á þessum grunni á hvaða grunni á þá að vinna? Stjórn Vaðlaheiðarganga hf. hefur á undanförnum mánuðum unnið að útboðum á vegum þessa verkefnis, samningum við ráðgjafa og samningum við Vegagerðina um nauðsynlega þjónustu. Gríðarlega mikil vinna hefur verið lögð í áætlanagerð og tillögur um fjármögnunarskilmála, svo sem greiðslufyrirkomulag, tryggingar o.s.frv. Og allt hefur þetta verið unnið á grunni þeirra samþykkta sem gerðar hafa verið af hálfu ríkisstjórnar Íslands og Alþingis.

Ef við lítum yfir það sem gert hefur verið á árinu 2011 í trausti þess að þessar samþykktir haldi, eðlilega, hvernig lítur þá tímaferill málsins út og helstu staksteinar ársins 2011 í þessa veru? Ég nefndi áðan fund innanríkisráðherra þar sem hann tilkynnti um þessar samþykktir og hvernig hann hygðist vinna málinu framgang á þeim grunni. Sá fundur var haldinn 26. janúar 2011.

9. mars var hlutafélagið Vaðlaheiðargöng formlega stofnað.

25. mars var opinn fundur samgöngunefndar Alþingis þar sem hæstv. innanríkisráðherra, fulltrúar Vaðlaheiðarganga og Vegagerðarinnar ásamt fulltrúa FÍB mættu.

28. mars var auglýst forval. Gefinn var frestur til 3. maí til að skila gögnum og sex fyrirtæki skiluðu.

10. júní var samþykkt frumvarp um breytingu á lögum um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir, nr. 97/2010, og það felur meðal annars. í sér eignarnámsheimild til Vegagerðarinnar.

5. ágúst voru gerðir samningar við Norðurorku sem miða að því að tryggja að ekki komi til vatnsþurrðar vegna framkvæmda við Vaðlaheiðargöng.

17. ágúst var skilmálaskrá vegna fjármögnunar Vaðlaheiðarganga hf. undirrituð. Með henni næst samkomulag við fjármálaráðuneytið um fjármögnun. Í framhaldi af þessari skilmálaskrá var unnið að undirbúningi lánasamninga.

19. ágúst voru útboðsgögnin afhent. Verklok samkvæmt útboðslýsingu eiga að vera 2015.

11. október voru tilboðin opnuð. Það bárust fjögur tilboð, lægst frá Íslenskum aðalverktökum upp á 95% af kostnaðaráætlun. Vegagerðin hafði áður en til þessa kom boðið út undirbúningsframkvæmdir, þ.e. byggingu bráðabirgðabrúar, og einnig boðið út eftirlit með framkvæmdum.

31. október, 20 dögum eftir að tilboðin voru opnuð, samþykkti stjórn Vaðlaheiðarganga samninga við landeigendur. Samningur við bændur á Halllandi var undirritaður um mánaðamótin nóvember/desember.

17. nóvember, rúmum mánuði eftir að tilboðin voru opnuð, samþykkti Alþingi í fjáraukalögum heimild til þáverandi fjármálaráðherra að endurlána Vaðlaheiðargöngum hf. allt að 1.000 millj. kr.

7. desember, 20 dögum síðar, samþykkti Alþingi fjárlög fyrir árið 2012 og í 5. gr. þeirra er heimild til fjármálaráðherra að endurlána á árinu 2012 allt að 2 milljarða kr. til Vaðlaheiðarganga hf.

Í ljósi forsögunnar sem ég hef hér rakið er með hreinum ólíkindum að frumvarp það sem hér er til umfjöllunar, um heimild til ráðherra f.h. ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði, skuli ekki vera lagt fram fyrr en undir lok vorþings 2012. Athugasemdir sem gerðar eru við það verklag eru fullkomlega eðlilegar.

Það hefur legið fyrir í fjármálaráðuneytinu frá því haustið 2011 að leggja yrði fram frumvarp sem heimilaði ríkisábyrgð á því láni sem hér er miðað við. Án slíkrar lagasetningar er ekki unnt að staðfesta og ganga frá samningi við verktaka sem átti lægsta tilboð í jarðgangagerðina.

Þessi dráttur hefur þegar valdið ómældum kostnaði og það sem verra er, grafið undan tiltrú almennings á verkefninu. Þennan vandræðagang verður því miður að rekja til óeiningar innan stjórnarmeirihlutans við fullnustu samþykkta Alþingis því að þær liggja algjörlega kýrskýrar fyrir. Það er raunar með ólíkindum að hlýða á umræðuna um þetta mál í þingsölum í ljósi þeirrar forsögu sem málið hefur hér á Alþingi allt frá árinu 2008.

Sú leið sem ráðherra leggur til í frumvarpinu að farin verði við fjármögnun þessa verkefnis er byggð á því að veggjöld muni standa undir lánveitingu ríkissjóðs í stað þess að taka fjármuni frá öðrum verkefnum næstu ár eða áratugi. Þar gegna fjögur atriði lykilhlutverki:

Í fyrsta lagi líftími framkvæmdarinnar og í öðru lagi lánstími. Líftími framkvæmdarinnar er í raun langmikilvægasti hluti málsins. Ég er þeirrar skoðunar að gatið í gegnum heiðina falli seint í verði á meðan akstur bifreiða á Íslandi leggst ekki af þar sem umferð um jarðgöngin hættir ekki að því er ég best veit eftir 25 ár, þó svo að líftími verkefnisins sé reiknaður slíkur í forsendum þeirra útreikninga á kostnaði verksins.

Vextir af láninu eru þriðja atriðið. Allar forsendur ættu að vera til þess að vextir af lánum til framkvæmdar sem þessarar séu þeir lægstu mögulegu hérlendis. Hér er um að ræða stórt lán, öruggt veð og öruggan greiðanda.

Í fjórða lagi vil ég svo nefna umferð um Vaðlaheiðargöng. Það liggur fyrir að Vaðlaheiðargöng munu stytta akstursleið um 16 km og að þjóðvegur 1 mun liggja um jarðgöngin. Ég tel engin efni til þess að draga í efa umferðarspá Vegagerðarinnar vegna Vaðlaheiðarganga. Þar eru þeir sérfræðingar sem við eigum besta í þessum efnum þó svo að þeim hafi skeikað töluvert í spám undanfarin ár varðandi umferð um jarðgöng og þá alltaf verkefninu til góða, þ.e. þeir hafa fremur spáð minni umferð en raun varð á. Það eitt er hins vegar víst, og ég held að reynsla manna geti sagt þeim það, að það er ekkert ólíkt með vatnið og umferðina, hvort tveggja leitar alltaf stystu leið milli staða.

(Forseti (SIJ): Forseti biður ræðumann afsökunar, en þar sem nú líður að matarhléi biður forseti þingmanninn um að gera hlé á ræðu sinni þegar honum hentar á næstu mínútum þar sem einnig hafa komið fram beiðnir um andsvör og fundir eru fyrirhugaðir í matarhléi.)

Forseti. Þingmaður gerir þá athugasemd að þetta er sennilega í þriðja sinn sem hann lendir í þeirri stöðu að þurfa að gera hlé á ræðu sinni í stóru og mikilvægu máli. Ég hyggst ljúka í það minnsta ræðu minni undir lokin. Ég á eftir örstuttan kafla sem ég vil gera skil áður en við gerum hlé.

(Forseti (SIJ): Við verðum að gera hlé um klukkan eitt vegna nefndarfunda. Forseti biður ræðumanninn afsökunar á þessu.)

Sömuleiðis biður sá ræðumaður sem hér stendur forseta afsökunar á því að hreyfa andmælum við hans ágætu tilmælum en ég skal reyna að virða þau svo vel sem ég get og afsökunarbeiðnin er móttekin að sjálfsögðu.

Fjármögnunin sem hér liggur fyrir — (AtlG: Og allir vinir?) það eru allir vinir í þessu máli, hv. þm. Atli Gíslason, það er rétt — gerir ráð því að ríkissjóður láni Vaðlaheiðargöngum 8,7 milljarða kr. til að standa straum af kostnaði við verkið og sú fjárhæð verði svo öll endurgreidd með veggjöldum af umferð um göngin. Meginniðurstaða skýrslu sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið um stofnkostnað og rekstur er sú að allar forsendur séu innan raunhæfra marka en þó er lagt til að eigið fé Vaðlaheiðarganga hf. verði aukið. Í skýrslu IFS Greiningar er bent á að teknu tilliti til ákveðinna forsendna að styrkja þurfi eigið fé um allt að 1,5 milljarða kr. til að draga úr líkum á greiðslufalli. Fyrirtæki og sveitarfélög á svæðinu hafa lýst sig reiðubúin til þess að tryggja nauðsynlega fjármögnun en ég vil undirstrika að engin skrifleg loforð liggja fyrir í þeim efnum.

Nú hyggst ræðumaður gera hlé á ræðu sinni að ósk forseta og við tökum þá upp þráðinn að loknu matarhléi.

(Forseti (SIJ): Nú verður gert hálftímahlé á fundinum. Fundinum er frestað.)