140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[13:42]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langar að byrja á því að gleðja hv. þm. Kristján Þór Júlíusson með því að upplýsa hann um að ég hef ekkert á móti framkvæmdum, ég hef ekkert á móti góðum framkvæmdum. Ég hef ekkert á móti Vaðlaheiðargöngum sem slíkum, ég hef ekkert á móti landsbyggðinni og mér líkar það ekki þegar hlutirnir eru settir upp í þann búning. Ég hef hins vegar á móti því að Vaðlaheiðargöng séu sett fram fyrir aðrar mun brýnni samgönguframkvæmdir. Það tel ég ósanngjarnt og ekki rétt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um einmitt forgangsröðun jarðganga. Ef það væri þannig að engir vegtollar væru í Vaðlaheiðargöngum, hvernig mundi hann raða í forgangsröð þessum þremur jarðgöngum í landinu: Vaðlaheiðargöngum, Norðfjarðargöngum og Dýrafjarðargöngum? Hvaða göng af þessum telur hann brýnust, hver næstbrýnust og hver lenda númer þrjú, ef hv. þingmaður tekur vegtollana alveg úr sambandi? Á hvaða forsendum raðar hann þessum göngum eins og hann gerir? (Forseti hringir.) Ég kem að annarri spurningu minni í næsta andsvari.