140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[13:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og skal vitna um það að hv. þingmaður er ekki þeirrar gerðar að hafa eitthvað á móti landsbyggðinni. Þvert á móti hef ég reynt hv. þingmann að allt öðrum þáttum í afstöðu hennar gagnvart tilteknum verkefnum úti um allt land. Það skal undirstrikað hér sem mín skoðun.

Ég vil jafnframt segja að ég hef þá trú að þetta verkefni eins og það liggur hér fyrir standist þær forsendur sem til þess eru gerðar. Ég hef ekki fengið sannfæringu fyrir því frá andstæðingum þess sem hafa verið að færa fram rök gegn því að veggjöldin standi ekki undir þessum kostnaði. Meðan ekki er sýnt fram á það styð ég þetta verkefni með þeirri athugasemd að vissulega má finna á því galla og ég nefndi þá í minni ræðu, eins og hv. þingmaður heyrði, sem lutu að endurfjármögnunarþættinum.

Varðandi forgangsröðunina skal ég taka það í síðara andsvari og mun svara því mjög heiðarlega en tími minn í fyrra andsvari er þrotinn.