140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[13:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka enn og aftur andsvarið en það er til of mikils mælst að ég fari yfir helstu áhersluatriði í samgöngum alls landsins eins og var hlaðið á þessa spurningu. Ég kýs að svara spurningunni sem kom fram í fyrra andsvari hv. þingmanns og mér finnst vera grundvallaratriðið og laut að því hvernig ég mundi vilja raða framkvæmdum ef vegtollur væri ekki í Vaðlaheiðargöngum. Það er mjög einfalt. Það eru Norðfjarðargöng, Dýrafjarðargöng og Vaðlaheiðargöng. Það er mjög einfalt í mínum huga.

Eina ástæðan fyrir því að ég mæli með samþykkt þess frumvarps sem hér liggur fyrir er sú leið sem fara á til að fjármagna verkefnið. Það er ríkur greiðsluvilji á svæðinu til að leggja fram hlutafé til verkefnisins og líka til þess að standa undir kostnaði með veggjöldum. Það er eina ástæðan fyrir því að þetta mál er hér inni.

Ef þessi forsenda væri ekki í verkinu og við værum að fjármagna það allt (Forseti hringir.) beint úr ríkissjóði væri þetta skilyrðislaust forgangsröðun mín.