140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[13:50]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Nei, það gerir það ekki en það kann að vera hv. þingmanni að kenna vegna þess að spurningin var kannski ekki mjög vel formuð.

Þetta skiptir máli vegna þess að þegar samgöngunefnd undir forustu hv. þm. Björns Vals Gíslasonar lagði til að það frumvarp yrði samþykkt sem hér um ræðir, um hlutafélag um Vaðlaheiðargöng, lagði nefndin til að farin yrði sú leið sem hér hefur með réttu eða röngu verið kölluð einkaframkvæmdarleið, þ.e. að ríkið legði að vísu fé í stofnun hlutafélags en síðan yrði hlutafélagið rekið á einkamarkaði eins og einkafyrirtæki. Þetta er leið sem við vitum að hefur verið farin við Hvalfjarðargöng og aðrar framkvæmdir innan lands og utan og þess vegna er rétt að spyrja núna: Úr því að samgöngunefnd lagði þetta til og þingið samþykkti á þessari forsendu, er það enn þannig, forseti, að við séum að tala um einkaframkvæmd? Hvers konar framkvæmd erum við að tala um ef við erum ekki að gera það?