140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[13:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í bréfi sem ég skrifaði Vegagerðinni vegna Vaðlaheiðarganga í júnímánuði, 8. júní árið 2011, segir að það sé grundvallarskilyrði að framkvæmdin verði rekstrarlega sjálfbær. Þannig hefur verið gengið frá málinu af minni hálfu.

Á þessum tíma var ætlað að jarðgangagerð í landinu mundi frestast á næstu árum, við hefðum ekki peninga til að ráðast í jarðgangagerð. Nú er verið að tala um að flýta gerð jarðganga, að flýta gerð Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga. (Gripið fram í.) Þá hljótum við að sjálfsögðu að horfa til breyttra forsendna. Ég er því ekki einvörðungu að vísa í þau skilyrði sem ég setti fram munnlega og bréflega og hafa alltaf verið afdráttarlaus af minni hálfu, heldur er ég líka að vísa í þær breyttu forsendur sem nú eru að skapast (Forseti hringir.) og Alþingi ber að taka tillit til.