140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[14:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru margar spurningar frá hv. þingmanni. Ég ætla að byrja á að mótmæla því að ég hafi sagt að frumvarpið sé óraunhæft. Ég sagði bara að áætlanir um endurfjármögnun væru óraunhæfar og því þyrfti að líta á þetta sem lán til langs tíma.

Varðandi niðurskurð í ríkisbúskapnum þá hefur hann verið umfangsmikill og fyrir liggur að viðhafa þarf mikið aðhald í ríkisfjármálum. Ekki má blanda því saman að niðurskurður í rekstri ríkisins felur í sér minnkun ríkisins til lengri tíma litið og dregur þar með úr útgjöldum til komandi ára. Lánveitingin felur ekki í sér hreina lánsfjáraukningu þar sem hún skráist sem krafa á Vaðlaheiðargöng hf. og komi til þess að leggja þurfi til fé verður það stofnkostnaður en ekki útgjöld ár eftir ár úr ríkissjóði til að standa undir rekstri.