140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[14:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það að Vaðlaheiðargöng gætu haft mikið samfélagslegt gildi en mér finnst hins vegar sá fyrirvari sem hv. þingmaður gerði grein fyrir þess eðlis að ekki geti verið rökrétt fyrir hana að styðja þetta frumvarp miðað við þær forsendur sem hún gerði grein fyrir.

Menn hafa efast um margar þær forsendur sem liggja að baki þessari ákvörðun um ríkisábyrgð, í fyrsta lagi varðandi vaxtastigið og endurfjármögnunina, í öðru lagi vegna umferðarmagnsins og í þriðja lagi vegna ýmiss konar rekstrarforsendna. Hefði ekki verið eðlilegra, svo ég segi nú ekki heiðarlegra, að ríkið mundi að minnsta kosti reyna að draga úr áhættunni með því að leggja fram eitthvert eigið fé og losna þannig frá ríkisábyrgðinni sjálfri eða að þær fjármálareglur sem liggja til grundvallar ríkisábyrgðum og kveðið er á um í lögum hefðu verið látnar gilda um þetta? Þetta frumvarp gengur ekki bara út á ríkisábyrgð heldur líka út á það að kippa þessum fjármálareglum úr sambandi og koma þannig í veg (Forseti hringir.) fyrir að þessi 20% verð lögð fram, sem eru um 2 milljarðar miðað við að þessi fjárfesting sé um 10 milljarðar kr.