140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[14:17]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Til að koma þessu verkefni á koppinn þurfti að sniðganga, fara krókaleiðir, breyta lögum o.s.frv. Það efast enginn um gagnsemina en farið er fram hjá forsendum til að koma því á koppinn. Það sem átti að vera einkaframkvæmd er orðin ríkisframkvæmd. Samgönguáætlun er sniðgengin og mun brýnni verkefni, sem allir vita af, eru sett aftur fyrir en þetta er tekið fram fyrir.

Samgöngumál er allt í einu gert að fjármögnunarmáli og umhverfis- og samgöngunefnd er sniðgengin, farið er fram hjá henni, fagnefnd þingsins sem hafði þó haft þetta mál til umfjöllunar. Það er mjög gagnrýnisvert að fjárlaganefnd skyldi ekki leita umsagnar umhverfis- og samgöngunefndar. Það þarf að breyta lögum, það þarf að taka úr sambandi öryggisventilinn sem eru ríkisábyrgðalögin, fella þar úr gildi ákveðin ákvæði. Þetta fer að mínu mati fer í bága við niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og er dæmigerð 2007 hugsun. Ég spyr hv. þingmann hver sé hennar skoðun á því.