140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[14:21]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er heils hugar sammála hv. þm. Merði Árnasyni sem og Atla Gíslasyni um að það er mjög mikilvægt að efla almenningssamgöngur og ég hef lagt þeim málum lið í þinginu. Hvað hækkun olíuverðs varðar og áhrif á getu heimilanna til þess að nýta sér einkabílinn vil ég benda á að þarna er einmitt verið að stuðla að greiðari leið, auðveldari samgöngum milli Fnjóskadals og Eyjafjarðar. Þetta er eitt helsta vaxtarsvæði utan höfuðborgarsvæðisins og með göngunum er verið að stytta leiðina þarna á milli og draga þar með úr því magni olíu og bensíns sem fjölskyldur þurfa að nýta til að sækja vinnu og menningu á milli svæða.