140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[14:48]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans þar sem margt kom fram. Eitt af því sem ég hjó eftir í ræðu hv. þingmanns var þjóðhagsleg hagkvæmni ganganna og ef aðrar forsendur væru settar inn kæmi allt önnur niðurstaða út en sú sem var fengin frá norðanmönnum.

Ég ítreka að ég er ekki að gera lítið úr Vaðlaheiðargöngum sem samgöngubót og góðu verkefni í sjálfu sér. Það eru bara ótal mörg önnur verkefni sem eru út frá svo ótal mörgum öðrum forsendum miklu brýnni. Um það snýst málið og þess vegna hefur einmitt spurningin um Vaðlaheiðargöng snúist um þetta: Bera þau sig algjörlega sjálf út frá þessum vegtollum eða ekki? Ef þau gera það ekki eða hætta er á því og of mikil óvissa er í þeim efnum á að sjálfsögðu ekki að troða þeim fram fyrir aðrar brýnni úrbætur.

Mig langaði í því samhengi, vegna þess að hv. þingmaður situr bæði fundi umhverfis- og samgöngunefndar og fjárlaganefndar og fylgist vel með störfum beggja nefnda, að spyrja hvort honum þyki ekki eðlilegt að þessi göng, Vaðlaheiðargöng, raðist þá eðlilega sem ríkisframkvæmd, því að þau eru í eðli sínu ríkisframkvæmd, í samgönguáætlun, í jarðgangaáætlun og það sé þá samgöngunefndar og svo þingsins að vega og meta hvaða áhrif það hafi á þá röðun að hægt sé að taka þarna vegtolla, hvort það yfirvinni allar aðrar forsendur eins og umferðaröryggi, byggðaþróun o.s.frv. Það verður að fara yfir það alveg sérstaklega og meta þetta mál heildstætt, sem er í eðli sínu ríkisframkvæmd, þar sem klárlega liggur fyrir svo mikil óvissa um hvort verkefnið standi undir sér og þar með sé grunnforsendan fyrir því að það sé tekið út úr samgönguáætlun (Forseti hringir.) með þeim hætti hér er gert fallin.