140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[14:52]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Mig langar að ítreka spurningu mína í fyrra andsvari sem lýtur að þjóðhagslegri hagkvæmni. Við í umhverfis- og samgöngunefnd höfum ekki setið fundi fjárlaganefndar um þetta frumvarp og höfum því ekki haft beina aðkomu að þessu máli. Það væri því mjög fróðlegt að heyra meira af nákvæmlega þessum þætti sem greinilega hefur komið fram í fjárlaganefnd.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að öðru. Nú tölum við gjarnan og eðlilega um að finna og leggja áherslu á sem mest atvinnuskapandi verkefni, mannaflsfrek verkefni o.s.frv., enda nauðsynlegt, og m.a. er tiltekið í áliti meiri hlutans að þetta verkefni skapi störf, en augljóslega skapa Vaðlaheiðargöng ekki fleiri störf en önnur göng sem eru brýnni eða aðrar vegaframkvæmdir sem eru brýnni. Fór fram einhver vinna innan fjárlaganefndar í að greina hversu atvinnuskapandi Vaðlaheiðargöng eru til mótvægis við önnur brýn verkefni og hversu mjög þau borga sig hvað það varðar? Fór fram einhver greiningarvinna varðandi t.d. útstreymi gjaldeyris o.s.frv.? Jarðgangagerð er allt öðruvísi mannvirkjagerð í samgöngumálum en aðrar framkvæmdir og er auðvelt að benda á mörg verkefni, eins og ég segi, sem eru mannaflsfrekari, meira atvinnuskapandi og koma okkur vel af stað á margan hátt. Við þurfum þar af leiðandi að vanda okkur (Forseti hringir.) rosalega vel þegar við ákveðum hvaða jarðgöng eigi að fara af stað (Forseti hringir.) vegna þess að þau taka svo mikið fjármagn, eru ekki jafnatvinnuskapandi og ýmsar aðrar framkvæmdir (Forseti hringir.) og þeim fylgir ýmislegt sem öðrum framkvæmdum fylgir ekki. (Forseti hringir.) Þess vegna þurfum við að vanda okkur alveg sérstaklega.