140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:16]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka sérstaklega undir orð hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, umræðan hér hefur verið málefnaleg frá öllum hliðum, gagnleg röksemdafærsla hefur verið færð fram og áleitnar spurningar hafa vaknað, og fleiri eftir því sem líður á þennan þingfund.

Það er ljóst að umhverfis- og samgöngunefnd hefur verið sniðgengin í þessu máli en hún tók hins vegar málið upp að eigin frumkvæði í vetur og aflaði býsna mikilla gagna sem hv. þingmaður hefur vísað til í ræðu sinni. Telur hv. þingmaður ekki eðlilegt að málið fari til umhverfis- og samgöngunefndar milli 2. og 3. umr., ekki eingöngu til fjárlaganefndar? Fari málið til fjárlaganefndar milli 2. og 3. umr., er þá ekki eðlilegt að leita álits eða halda sameiginlega fundi fjárlaganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar?

Eins vildi ég spyrja hv. þingmann um forgangsröðun hennar í jarðgöngum og rökstuðning fyrir henni. Enn fremur spyr ég hverja hún telji mesta gagnsemi í vegaframkvæmdum. Hér hefur verið nefnt eitt dæmi sem ég þekki best sjálfur og það er Hornafjarðará þar sem brúin er að niðurlotum komin og hringvegurinn mundi styttast verulega ef brúin yrði bætt. Hver er afstaða hennar til þess og hvort ekki þurfi að fara þá í fleiri og smærri verkefni sem yrðu vinnuaflsfrekari?

Það er brúarsmíðin, stuttir kaflar, tengivegirnir og margt fleira þannig að margar litlar framkvæmdir væru heppilegri en stórar.