140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:20]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur skýr svör. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að auðvitað eigi málið að fara bæði til fjárlaganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar og tek sérstaklega fram að ég hef setið sameiginlega fundi atvinnuveganefndar og umhverfisnefndar um rammaáætlun sem hv. þm. Kristján Möller hefur stýrt af miklum sóma. Ég sé alveg fyrir mér að endurtaka það að taka sameiginlega fundi nefndanna milli 2. og 3. umr.

Aðeins vildi ég síðan heyra nánar um sjónarmið hv. þingmanns um olíuverð sem er fyrirséð að muni hækka verulega í framtíðinni. Það er óhjákvæmilegt. Á móti kemur að menn eru að framleiða sparneytnari bíla o.s.frv. en það er nokkurn veginn fyrirséð að breyttur lífsstíll fyrir utan þessa þætti næstu áratugina, í framtíðinni, muni leiða til minnkandi einkaumferðar samfara auknum almenningssamgöngum.

Í þriðja lagi vil ég koma að því að það hefur komið fram að umferð um Vaðlaheiðargöng verður langmest á sumrin, sumarleyfismánuðina maí til september, og margir erlendir ferðamenn og innlendir auðvitað munu fara um þetta svæði. Var reynt að skoða það og nálgast þá hugsun hvort þessir ferðamenn, innlendir sem erlendir, muni fara Víkurskarðið eða göngin í ljósi þess að styttingin er ekki meiri en þetta? Víkurskarðið er býsna falleg leið og einkar náttúrufögur. Var að einhverju leyti reynt að meta þennan þátt málsins?