140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:47]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður er það oft þannig, og allt of oft í opinberri umræðu um samgönguframkvæmdir, að verið er að stilla upp framkvæmdum hverri á móti annarri og ekki bara það heldur líka kjördæmum hverju á móti öðru. Búin er til einhver svona réttlætingarröð í röð framkvæmda sem felur í sé að eitt kjördæmi fái jarðgöng og þá komi inn næstu jarðgöng í annað kjördæmi og svo koll af kolli. Ég lít ekki svo á og vil ekki nálgast málið með þeim hætti. Ef við mundum breyta kjördæmakerfinu og hafa tvö kjördæmi á landinu þannig að það væri Norðurkjördæmi og Suðurkjördæmi heilt yfir, ættu þá næstu göng ekki að koma á Norðfirði? Eða ættu þá næstu göng að koma einhvers staðar á Suðurlandi eða í Suðurkjördæmi?

Það er ekki hægt að láta einhverja svona skiptingu, sem er eftir íbúafjölda og pólitíkinni í landinu, ráða því hvar okkur ber niður í þessum efnum. Við eigum að horfa á það hvar við bætum mest umferðaröryggið. Ekki er sama umferðarmagninu til að dreifa í fyrirhuguðum Dýrafjarðargöngum og Norðfjarðargöngum (Forseti hringir.) og kemur til með að verða í Vaðlaheiðargöngum. Þess vegna koma þau göng fyrst.