140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:50]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka að mér finnast þetta allt vera brýnar framkvæmdir. Eins og ég sagði í ræðu minni og í andsvari við hv. þm. Atla Gíslason þá vil ég horfa til umferðaröryggisins og hef reynt að reiða mig á sérfræðiþekkingu Vegagerðarinnar í þessum efnum. Ég hef einfaldlega spurt: Að hvaða leyti bætum við mest umferðaröryggi að Vaðlaheiðargöngum slepptum? Ég er sannfærður um að sú framkvæmd hefur ekki áhrif á niðurröðun annarra samgönguframkvæmda. Það er búið að ákveða með bæði skammtíma- og langtímaáætlun í samgöngum hvernig við skiptum fjármunum. Það er, eins og hv. þingmanni er fullkunnugt um, til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd núna. Þarna er verið að taka eina framkvæmd út fyrir þá áætlun, fjármagna hana með öðrum hætti og teikna upp plan hvernig staðið verði undir þeirri fjármögnun.

Þegar ég hef spurt þá hjá Vegagerðinni að því hvernig umferðaröryggi verði best bætt og beðið þá að velja á milli Dýrafjarðarganga og Norðfjarðarganga hafa svörin verið: Að sjálfsögðu Norðfjarðargöng. Það er vegna þess, eins og hv. þingmaður bendir á, að þar sem ekki eru mannvirki er ekki umferð. Það er ekki þar með sagt að ég sé andvígur þeirri framkvæmd, heldur finnst mér Norðfjarðargöng vera brýnni framkvæmd. Ég held að við eigum næst að ráðast í þau göng og síðan í Dýrafjarðargöng. Auðvitað væri óskandi að við gætum ráðist í báðar framkvæmdir á sama tíma. Ég held að það sé ekki raunsætt, það verði ekkert fjármagn til þess.

Ég vona að ég hafi svarað spurningum hv. þingmanns.