140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um heimild til handa ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Við erum að ræða um sérlög um ákveðin göng og það vekur upp spurningar um af hverju þau eru ekki í samgönguáætlun eins og aðrar samgönguframkvæmdir í landinu sem ríkissjóður greiðir. Þá hafa menn sagt að þetta sé eins konar einkaframkvæmd. Ég ætla að koma inn á það á eftir.

Það sem er athyglisvert við þetta mál er að formaður annars stjórnarflokksins, hæstv. efnahags- og viðskipta-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Steingrímur J. Sigfússon, er þingmaður fyrir þetta kjördæmi. Fyrrverandi samgönguráðherra, hv. þm. Kristján Möller, er tengdur þessu verkefni, því að hann sat í stjórn þess fyrirtækis sem mun bora þessi göng. Maður veltir fyrir sér, frú forseti, siðferðinu í þessu og hvort menn ætli ekkert að læra af hruninu, bara ekki neitt. Þetta er greinilegt dæmi um að menn eru að — ég veit ekki hvernig ég á að orða það — fá fleiri atkvæði í kjördæmi sínu með ríkisfé.

Hér er talað um ríkisábyrgð. Í mínum huga er enginn munur á ríkisábyrgð og ríkisútgjöldum. Ríkissjóður getur hvar sem er fengið lán á meðan hann er yfirleitt gjaldhæfur og er ekki kominn í ruslflokk. Þá getur hann fengið lán hvar sem er með tiltölulega lágum vöxtum og breytt því í peninga. Sá sem fær ríkisábyrgð gerir nákvæmlega það sama, hann fær peninga með bakstuðningi ríkisins.

Í fjárlögum og fjáraukalögum hef ég passað mig á að greiða atkvæði gegn svona fyrirbærum, en nú er búið að, ef ég veit rétt, það er ekki einfalt að átta sig á þessu, samþykkja 2 milljarða í fjárlögum og hér er verið að auka við upp í 8,7 milljarða. Það er aukning um 6,7 milljarða. Það er ekki lítil tala, frú forseti. Það er ansi stór tala. Eftir því sem mér skilst á hæstv. ráðherrum vantar peninga í ríkissjóð og það þarf að skera niður. Ég man eftir líknardeildinni sem kostaði 50 milljónir, það er nú bara skiptimynt í þessu dæmi. Ég man eftir uppsögnum á spítölum. Ég heyri núna áætlanir fyrir komandi fjárlög um viðbótarniðurskurð. Ég hef heyrt í forstjóra háskólasjúkrahúss hér í Reykjavík að nú sé komið að þolmörkum. Hann og starfsfólk hans hefur verið mjög duglegt að skera niður með alls konar aðgerðum, mjög hastarlegum sumum, en nú er komið að mörkum og það þarf að fara að skerða þjónustu. Á sama tíma og við skerðum þjónustu, frú forseti, fyrir sjúkt fólk og veikt, og segjum upp fólki sem er á launum hjá ríkinu, á að fara út í framkvæmd sem kostar 8,7 milljarða af ríkisfé.

Nú hafa menn sagt: Þetta er ekki rekstur, þetta er framkvæmd og hún gefur góða raun og allt svoleiðis. Það er alveg hárrétt. Þetta er góð framkvæmd, ekki spurning. Ef ég ætti nóga peninga mundi ég setja þá fyrst í háskólasjúkrahús og svo í þetta. Það er nefnilega dálítið mikilvægt að við höldum heilsu í fólki. Þá kemur það fyrr út á vinnumarkaðinn, fer fyrr að borga skatta o.s.frv. Mér finnst það því ekki vera rök, fyrir utan að þegar maður les umsagnir um þetta frumvarp, í fyrsta lagi frá Ríkisábyrgðasjóði þar sem kemur fram mjög hörð gagnrýni á það og í öðru lagi frá IFS Greiningu, kemur í ljós að það er töluverð hætta á því að ríkissjóður sitji uppi með þessa framkvæmd. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Það eru töluvert miklar líkur á því. Ef það gerist verður þetta að rekstri hjá ríkissjóði, þá þarf stöðugt að vera að borga um alla framtíð vexti og afborganir af þessari framkvæmd. Ég sé ekki stóran mun á því og setja pening í rekstur ríkissjóðs.

Það sem er kannski verst við þetta er að fólki er talin trú um að eftir fjögur ár komi til ný fjármögnun sem ríkinu komi bara ekkert við. Þetta minnir dálítið mikið á Grikkland. Þetta var einmitt gert þar í auknum mæli. Þetta verkefni er kannski ekki besta dæmið um það í íslenskum fjárlögum, við þekkjum miklu betri dæmi. Nýja háskólasjúkrahúsið á víst að detta af himnum ofan og Harpan, enginn er að borga hana, (Gripið fram í.) SpKef, Sparisjóður Keflavíkur, SPRON — ég ætla ekki að fara lengra í þetta, þá endist mér ekki tíminn. Allt minnir þetta á Grikkland, frú forseti, og við þurfum að fara að sýna aga.

Í samgönguáætlun er verkefnum raðað að bestu manna yfirsýn. Ég hef aldrei blandað mér mikið í það, en alla tíð síðan ég kom inn á þing hef ég orðið var við mjög heitar tilfinningar gagnvart samgönguáætlun. Sumir þingmenn leggja ofuráherslu á að einhver spotti sé kláraður hér eða þar, einhverjar framkvæmdir séu í sveitinni o.s.frv. Ég get svo sem skilið það. En ég hef aldrei lagt áherslu á það því að ég nota nefnilega þessa vegi velflesta, ég held að ég hafi keyrt í gegnum öll göng landsins. Ég lít þannig á að vegaframkvæmdir séu fyrir landið allt. Ég mundi vilja hafa það þannig. Og þá á að skoða hvað er mikilvægast. Hér hafa Dýrafjarðargöng verið nefnd, einnig Norðfjarðargöng sem eru á vegáætlun en þurfa að hopa. Þar þarf að keyra yfir mjög hættulegan fjallveg. Það stendur á móti þessu verkefni sem við ræðum hér.

Gert er ráð fyrir því að innheimta veggjaldanna verði með rafrænum hætti. Það er ágætt og getur vel verið að það verði, því innheimtan í Hvalfjarðargöngunum er mjög dýr. Hún kostar fleiri tugi milljóna á ári.

Að þessu verkefni kemur fyrirtæki, Vaðlaheiðargöng hf., sem nánast eingöngu opinberir aðilar standa að. Það er ríkissjóður í gegnum Vegagerðina, fyrirtæki á Akureyri sem heitir Greið leið ehf. sem KEA á í, en KEA er sjálfseignarstofnun sem enginn á, síðan er það Akureyrarbær sem er opinbert sveitarfélag o.s.frv. Einhverjir einkaaðilar eru í þessu, ég hef ekki séð hverjir það eru, en þetta eru meira og minna allt opinberir aðilar. Og að segja að þetta sé einkaframkvæmd er bara brandari.

Ég hef áður lagt til að það yrði stofnaður Háskóli Íslands ohf. sem væri fyrirtæki sem ræki Háskóla Íslands og fengi milljónkall á hvern nemanda, að mestu verðtryggt til næstu ára. Þá færi sá rekstur bara út úr ríkissjóði. Menntamálaráðuneytið, bingó, engin gjöld og enginn kostnaður og allt voðalega gaman.

Menn eru að plata sjálfa sig með þessu. Háskólum fylgir rekstur og einnig þessum göngum. Það þarf að borga vextina af þessu. (Gripið fram í: RÚV.) Það borgar enginn — já, svo maður tali nú ekki um RÚV. Ég hef lagt til að RÚV verði einkavætt, hef í tvígang lagt fram frumvörp um það. (Gripið fram í: Nú?) Já. Og talandi um eignarhald á fjölmiðlum, ef ég má fara rétt út fyrir efnið, þá er bara einn eigandi að RÚV, ég bendi á það. Menn vita hver er menntamálaráðherra og starfsmenn RÚV vita það mjög vel. Þeir vita líka hver er fjármálaráðherra og hvað hann er göfugur við þá. Þannig að þessi eini eigandi hefur sennilega töluvert mikil áhrif á starfsmenn RÚV og afstöðu þeirra til ráðherra.

Hér kom til umræðu áðan að ég hefði greitt atkvæði með Vaðlaheiðargöngum. Það held ég að sé alrangt, ég er búinn að fara í gegnum nokkrar atkvæðagreiðslur, þær eru náttúrlega fjölmargar. Ég var fjarverandi við eina atkvæðagreiðslu sem fór fram klukkan fjögur eða fimm um nótt einhvern tímann, síðan greiddi ég atkvæði gegn þessu í fjáraukalögum.

Mig langar til að taka hér hugleiðingu um bensínverð, það er mjög áhugaverð hugleiðing, og umferðarmagn. Við erum í ákveðinni olíukreppu núna. Bensín- og olíuverð hækkar og hækkar, en markaðurinn bregst þá náttúrlega við og verið er að framleiða bíla sem eru bæði rafmagnsbílar og hálfgerðir rafmagnsbílar og eyða litlu. Dísilbílarnir eru líka farnir að eyða mjög litlu. Ef okkur tækist að endurnýja bílaflotann yrði ódýrara að keyra af því að bílarnir eyða minna. Þar á móti stendur að mjög háir tollar og vörugjöld eru af bílum, reyndar ekki af rafmagnsbílum, þar eru gjöldin felld niður. Og rafmagnsbílum er að fjölga. Það getur vel verið að eftir fjögur, fimm ár verði umferðin komin aftur í gang þegar við förum að nota innlenda raforku og innlendar virkjanir til að keyra bílana okkar.

Þá getur verið að þessar forsendur um umferð um Vaðlaheiðargöng gangi eftir. Ég hef efasemdir um þá forsendu að 90% af þeim sem keyra þarna um muni fara í gegnum göngin. Ég hef ekki haft mikla trú á því. Ég hef sagt það áður að ef ég væri að fara sem ferðamaður kringum landið mundi ég frekar vilja keyra á sólríkum degi um Víkurskarð en í gegnum dimm göng. Þau verða reyndar upplýst með rafmagni en það er ekki alveg það sama og að keyra um fallega sveit. Það má vel vera að stór hluti af umferðinni sé fólk að flýta sér í vinnu, fara á fund eða eitthvað slíkt, það kann að vera að það vilji borga fyrir að keyra í gegnum dimm göng til að spara tíma.

Það sem ég ætlaði að tala um er álit IFS Greiningar á verkefninu. Á bls. 30 í þessu frumvarpi koma fram helstu niðurstöður IFS Greiningar og þar segir meðal annars, með leyfi frú forseta:

„Forsendur um fjárhagsskipan félagsins og hvernig tilheyrandi fjármögnun verði háttað eru ekki nægilega traustar.“

Þær eru ekki nægilega traustar. Þetta hefur fjárlaganefnd náttúrlega skoðað mjög ítarlega en samt tekið ákvörðun um að samþykkja þetta.

Svo stendur, með leyfi frú forseta:

„Fjárhagslegt svigrúm félagsins til að standa af sér neikvæða fjárhagslega atburði, svo sem vegna hærri stofnkostnaðar eða tafa á framkvæmdatíma, eru því mjög takmarkaðar.

Ef kostnaður verður meiri en ætlað er, sem oft gerist, frú forseti, verður ekkert svigrúm til þess að mæta því. Þá lendir hann beint á ríkissjóði. Þess vegna er í rauninni vitlaust að vera að tala um ríkissjóð og náttúrlega kannski á Akureyrarbæ líka, það lendir á þeim.

Hér segir líka:

„Ekki liggur fyrir hver bera eigi fjárhagslega áhættu ef stofnkostnaður verður hærri en áætlanir gera ráð fyrir.“

Það hefur enginn talað um hver eigi að bera áhættuna.

Síðan segir að markaðsaðstæður á lánamörkuðum að einhverjum árum liðnum, eftir fjögur ár þegar stofnkostnaður liggur fyrir, þegar breyta á þessu framkvæmdaláni yfir í langtímalán með einkafjármögnun, þ.e. án ríkisábyrgðar, þær liggja ekki fyrir, þær eru óþekktar. En síðan segir, með leyfi frú forseta:

„Hins vegar er skýrt að markaðsvextir þurfa að lækka umtalsvert frá því sem nú er til að forsendur um vaxtakjör langtímaláns til handa Vaðlaheiðargöngum hf. gangi eftir.“

Þetta er allt neikvætt, frú forseti, allt. Samt ákveður fjárlaganefnd eða meiri hluti hennar að leggja til að þetta frumvarp verði samþykkt. Það er lagt til að við þingmenn samþykkjum það.

Í síðasta punkti í niðurstöðum IFS Greiningar segir, með leyfi frú forseta:

„Að öllu þessu sögðu verður að telja að fyrirhuguð lánveiting ríkisvaldsins vegna framkvæmda við Vaðlaheiðargöng beri í sér umtalsverða áhættu fyrir lánveitanda.“ — Lánveitandi, það er ríkissjóður.

Þetta er ekki beint gaman og gæti komið okkur í koll eftir okkur ár. Ef gríska veikin smitar frá sér þá held ég við séum með bakteríuna nú þegar í líkamanum.

Í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs er líka mjög margt neikvætt. Þar segir til dæmis að líkur á greiðslufalli séu 40%. Líkurnar eru 40% á því að menn muni ekki geta greitt. Það mun þýða að félagið þarf að taka mjög dýr lán. Það getur leitt til þess að allar tekjur félagsins fari í vexti og dugi jafnvel ekki til, þannig að lánið verði ævarandi og sífellt vaxandi. Það er nú ekki gæfulegt, frú forseti.

Svo segja þeir hjá Ríkisábyrgðasjóði að stærsti óvissuþátturinn við framkvæmd Vaðlaheiðarganga sé hvernig takist að endurfjármagna árið 2018. Þeir segja að gjaldeyrishöft eigi að afnema 2013 og það sé allsendis óljóst hvað taki þá við. Fyrir utan það, frú forseti, ég vil bæta því við, að ég hef ekki mikla trú á því að það takist að afnema gjaldeyrishöftin 2013.

Þeir fara líka rétt í gegnum umferðarspána og forsendur hennar og segja að ef þessi spá breytist úr því að 90% af vegfarendum fari í gegnum göngin í 80% muni rekstrartekjur félagsins lækka um 11%. Til viðbótar við allt annað eru þessar forsendur ekki góðar.

Á síðu 52 má sjá niðurstöðu af skoðun Ríkisábyrgðasjóðs, en hann er settur á laggirnar til að skoða áhættu í sambandi við ríkisábyrgðir. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Afar ólíklegt er að unnt verði að endurfjármagna framkvæmdalán vegna Vaðlaheiðarganga án ríkisábyrgðar með þeim lánskjörum að verkefnið standi undir sér og ríkissjóður fái lán sitt þannig endurgreitt. Ríkið yrði því bundið áfram með það fjármagn sem nú er ráðgert að veita til framkvæmdanna.“

Síðan stendur:

„Standi vilji Alþingis til þess að ríkið fjármagni gerð Vaðlaheiðarganga telur Ríkisábyrgðasjóður raunhæfara að ríkissjóður lágmarki áhættu sína með því að fjármagna langtímalánið á markaði áður en framkvæmdir hefjast.“

Þá er ekki verið að þykjast að fjármagna eitthvert skammtímalán, heldur litið í alvörunni raunhæft á málið og göngin fjármögnuð til enda.

Það segir mér, frú forseti, að þetta er ríkisframkvæmd og engin einkaframkvæmd. Fyrir utan að þeir einkaaðilar sem eiga að standa að þessu verkefni eru allt saman opinberir aðilar. Það er Akureyrarbær, Vegagerðin og fleiri, allt aðilar sem í mínum huga eru dálítið langt frá því að vera einkaaðilar.

Mig langar að koma aftur inn á það sem ég nefndi í byrjun, að menn skuli yfirleitt líta á það sem eðlilegt að svona mál sé keyrt fram með harðfylgi þingmanna úr viðkomandi kjördæmi, að sú hugsun sé enn við lýði og að menn skuli ekki hlusta á þær raddir sem hér koma fram um hvað þessi framkvæmd er áhættusöm, hvað menn eru að taka mikla áhættu og að þetta sé í reynd ríkisframkvæmd sem eigi heima í samgönguáætlun. Ef þessi framkvæmd væri í samgönguáætlun dytti mönnum ekki í huga að setja þessi göng fram fyrir Norðfjarðargöng eða önnur göng sem eru ekki síður mikilvæg. Þess vegna eru sett um hana sérlög.

Svo vil ég aftur minna á að hér er um að ræða ríkisábyrgð. Ríkisábyrgð er sama og útgjöld. Ef ríkið mundi til dæmis veita Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi ríkisábyrgð á lánum, gæti hann haldið áfram rekstri sínum og þyrfti ekki að segja upp hjúkrunarstarfsfólki og starfsfólki sem annast veika og fatlaða og gæti haldið starfsemi sinni áfram.

Við erum því að tala um að nota fé úr mjög takmörkuðum sjóðum þar sem beita þarf ýtrasta aðhaldi. Þess vegna finnst mér skjóta mjög skökku við að meiri hluti fjárlaganefndar skuli hafa lagt til við Alþingi að þetta frumvarp verði samþykkt óbreytt.