140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðu hans. Við deilum þeim áhyggjum sem hafa komið fram í ræðum hér í vetur að ríkisstjórnin sé búin að setja svo mikla ríkisábyrgð eitthvert út í loftið, og þá aðallega hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, að raunverulega sé engin yfirsýn yfir það. Það kom meira að segja fram hér í umræðum í vetur að það er engin yfirsýn yfir hvað þetta er há upphæð. Þingmaðurinn nefndi hér til sögunnar ákveðin verk eins og t.d. Landspítalann og nú Vaðlaheiðargöng, það voru SpKef, Farice-sæstrengurinn og lífeyrissjóðsskuldbindingar opinberra starfsmanna, og þetta kemur hvergi fram í ríkisreikningi. Raunveruleg skuld ríkissjóðs er því langtum hærri en kemur fram í fjárlögum.

Þingmaðurinn er mjög fylginn sér og efast um þessa framkvæmd og þó að þetta séu kannski litlar upphæðir miðað við það sem búið er að veita ríkisábyrgð á eru þetta samt rúmir 8 milljarðar Hann fór yfir það í ræðu sinni að þetta væri alls ekki nein einkaframkvæmd vegna þess að það væru aðallega opinberir aðilar sem kæmu að þessari framkvæmd. Hver er ástæðan fyrir því að mati þingmannsins að látið er líta svo út að þetta sé einkaframkvæmd? Mig langar að fá svar við því.

Eins langar mig til að fá álit þingmannsins á því sem hefur komið fram hér í umræðum. Vegagerðin telur ekki ráðlegt að gera tvenn göng í einu á Íslandi vegna þess að þá skortir eftirlitsaðila með verkunum báðum því að það þarf að vera teymi sem vinnur að þessu. Hvers vegna eru þessi göng tekin fram yfir þau göng sem eru á vegáætlun? (Forseti hringir.) Og af hverju er verið að fara af stað með tvenn göng þegar mönnum er eindregið ráðið frá því að gera það?