140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nefnilega svolítið skrýtið mál. Þingmaðurinn kom hér aðeins inn á það sem í daglegu tali kallast kjördæmapot. Kannski er þetta einkennilegt í ljósi þess því að ég hef verið að skoða samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu en borgarstjórn Reykjavíkur afsalaði sér öllu nýframkvæmdafé hjá ríkissjóði nú fyrir skömmu og tók upp svokallað átak, ég kalla það átakið „allir með strætó“, því að það hefur komið fram hjá ríkisstjórninni að lækka þurfi kostnað hjá fjölskyldum á Stór-Reykjavíkursvæðinu, hinn svokallaða samgöngukostnað. Er það ekki í valdi hvers og eins hvað hann á marga bíla eða hvort hann ferðist með strætó eða á hjóli? Það er náttúrlega einkennilegt að Reykjavíkurborg skuli hafa samið svona af sér í ljósi þess.

Ég hef lagt fram fyrirspurn til innanríkisráðherra þess efnis að miklar blikur séu á lofti í náttúrunni hér. Það er eitthvað að gerast í Kleifarvatni sem jarðfræðingar geta ekki útskýrt. Vatnsborðið þar hækkar og lækkar. Stundum er talað um að það geti farið að gjósa í Bláfjöllum. Við íbúar höfuðborgarsvæðisins höfum bara Ártúnsbrekkuna til að koma okkur í burtu verði slík náttúruvá. Ég spyr um það hvort tiltæk séu nægilega mörg skip og hvort strætó geti sinnt þessu. Er það ekki einkennilegt að aldrei sé hugsað um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu? Sundabrautin var einhvern tímann í umræðunni hér. Þetta fer að verða eins og með barnið fyrir austan þegar það var spurt: Hvað ætlarðu að gera þegar þú ert orðinn stór? Ég ætla að bíða eftir álveri eins og afi. (Forseti hringir.) Það er að verða svoleiðis ástandið í nýframkvæmdamálum á höfuðborgarsvæðinu. Við það verður ekki unað. Það er spurning hvort ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal leggjum ekki fram eina góða tillögu á nýju þingi sem varðar samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.