140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:30]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir innlegg hans í þessa umræðu. Það er ekkert auðvelt að standa á móti einhverri tiltekinni framkvæmd, samgöngubót. (Gripið fram í.) Það er ekkert auðvelt fyrir fólk í hvaða flokki sem er, en það skiptir miklu máli á hvaða forsendum er farið í framkvæmdir, í hvaða röð, hvernig að þeim er staðið o.s.frv.

Það er eitt sem hefur gjörbreyst í umræðunni um Vaðlaheiðargöng. Nú treysta sér afar fáir ef nokkrir til að halda því fram að þetta sé einkaframkvæmd. Þetta er ríkisframkvæmd þar sem ábyrgðin verður klárlega að endingu ríkisins og skattgreiðenda, öll áhættan mun liggja þar. Þá er að mínu mati og margra annarra forsendan fyrir því að þetta fari ekki í eðlilega forgangsröðun brostin.

Mig langar af þessu tilefni að spyrja hv. þingmann sérstaklega hvað þetta varðar hvort hann telji ekki eðlilegt að raða þessum jarðgöngum líkt og öðrum í eðlilega forgangsröðun jarðganga í samgönguáætlun. Þessi jarðgöng komi þá þegar samgönguáætlun verður afgreidd úr umhverfis- og samgöngunefnd. Menn geti lagt fram breytingartillögu um að Vaðlaheiðargöng troðist fram fyrir t.d. Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng og haft þau sjónarmið fyrir þeirri breytingartillögu sinni að þar eigi að taka vegtolla, það séu rökin fyrir því að þau eigi að fara fram fyrir, það sé þá innan samgönguáætlunar sem fjallar um ríkisframkvæmdir (Forseti hringir.) og opinberar framkvæmdir í samgöngumannvirkjum. Mig langar að inna hv. þingmann (Forseti hringir.) eftir því hvort hann sé ekki sammála því að það verði að líta á þessa hluti alla í samhengi og heildstætt.