140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:35]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er nefnilega ágætt að taka þessa umræðu um að vera með og á móti vegna þess að í mínum huga snúast Vaðlaheiðargöng einmitt ekki um það hvort fólk er með Vaðlaheiðargöngum eða á móti þeim, heldur hvort fólk er með því að raða samgöngumannvirkjum með eðlilegum hætti á faglegum grunni eftir umferðaröryggi, eftir byggðaþróun og eftir því hversu brýnar samgönguúrbætur eru. Um það snýst málið.

Ég gæti verið fylgjandi Vaðlaheiðargöngum eftir fimm ár eða tíu ár eða fimmtán þegar komið er að þeim.

Þá kemur nefnilega að öðrum punkti í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals þegar hann talaði um að óeðlilegt væri að ætla sér að keyra þetta mál í gegn í svo miklu ósætti. Hér erum við með til umfjöllunar í þinginu svokallaða rammaáætlun sem á að vera liður í því að nálgast einhvers konar sátt hvað varðar vernd og nýtingu orkuauðlinda okkar. Þá kemur spurningin: Er ekki mikilvægt að það ríki nokkur sátt um forgangsröðun samgönguverkefna og um samgönguframkvæmdir? Er það ekki norðanmönnum til hagsbóta að Austfirðingar, Vestfirðingar og Reykvíkingar sem hér hafa talað séu ekki bullandi óánægðir með að það sé í raun á óljósum og óforsvaranlegum forsendum verið að troða þessari framkvæmd fram fyrir aðrar? Er ekki öllum fyrir bestu til lengri tíma litið að það sé þokkaleg sátt, þótt fólk hafi að sjálfsögðu mismunandi sjónarmið, (Forseti hringir.) um það hvernig eigi að raða samgöngumannvirkjum í forgangsröð?