140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað þarf að vera meiri sátt, en þegar ríkisstjórnin fer í tvær áttir, t.d. varðandi Evrópusambandið og margt fleira, rammaáætlun o.s.frv., leiðir það til mikilla sárinda og ósættis. Það er kannski ógæfa Íslands um þessar mundir.

Ég vil líta öðruvísi á þetta, ekki bara í svona þröngum skilningi. Við erum með takmarkað fé í ríkissjóði. Það er markmið að ná niður halla á ríkissjóði. Það er sameiginlegt verkefni okkar Íslendinga allra að ríkissjóður verði skuldlaus sem allra fyrst og helst að hann fari í hina áttina, borgi niður skuldir.

Við stöndum frammi fyrir: Viljum við jarðgöng þarna? — 8,7 milljarðar? Viljum við hætta að segja upp fólki á Húsavík, sjúkrahúsum og annars staðar? — Miklu lægri tölur. Viljum við minnka skuldir ríkissjóðs um 8,7 milljarða og skuldbindingar? Þetta er valið. Við höfum þetta þríeina val og í mínum huga eru það skuldirnar sem við ættum að horfa mest til vegna þess að það er slóðinn sem við afhendum börnunum okkar. Síðan finnst mér, herra forseti, að við ættum að líta á niðurskurðinn, hafa hann pínulítið vægilegri ef hægt er. Ef það eru til peningar í þessum mæli sem við erum að tala um, 8,7 milljarðar, ættum við að hafa niðurskurðinn pínulítið vægilegri vegna þess að það er verið að segja upp reyndu fólki sem fer á atvinnuleysisskrá eða til Noregs sem er mjög skaðlegt fyrir þjóðina. Ég hugsa að þegar upp er staðið skaði það þjóðina meira en sá hagnaður sem við höfum af einhverjum Vaðlaheiðargöngum.