140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru nokkrir lykilþættir í því máli sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefur vikið að. Þar á meðal er sú staðreynd að verið er að koma þessu máli fram hjá samgönguáætlun, sem er nokkuð sérkennilegt í ljósi þess að ef af yrði væri um að ræða eina stærstu ef ekki stærstu samgönguframkvæmd á því árabili sem um ræðir.

Ég vildi aðeins inna hv. þingmann nánar eftir því hvert viðhorf hans er til þessa verkefnis í samanburði við þau verkefni sem eru á samgönguáætlun og telja má til stórverkefna, jarðganga og slíkra verkefna, sem hafa ekki verið í neinni hraðmeðferð. Reyndar er nú talað um að flýta þeim verkefnum eitthvað miðað við auknar tekjur af veiðileyfagjaldi en allt er það háð margs konar vafa og skilyrt með ýmsum hætti.

Gæti hv. þingmaður velt því aðeins upp með mér hvernig þetta verkefni mundi raðast í samgönguáætlun ef við værum að taka það í samhengi við þá umræðu sem hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar hefur vakið máls á í þessari umræðu og fleiri þingmenn?