140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta atriði sem hv. þingmaður nefnir er lykilatriði. Framan af var það forsenda, eins og menn þekkja, fyrir því að þetta verkefni var tekið út fyrir sviga, tekið út fyrir samgönguáætlun, og átti að vinnast á alveg sérstökum forsendum að þarna væri um að ræða verkefni sem væri „sjálfbært“, þ.e. það átti að standa undir sér sjálft, vera einkaframkvæmd og ekki kosta neitt fyrir ríkissjóð. Eins og málið hefur þróast hefur verið leitt í ljós að um verulega áhættu er að ræða fyrir ríkissjóð og í stað þess að um eiginlega einkaframkvæmd sé að ræða þarf ríkið að útvega lán til að verkefnið geti komist í gang, það þarf að ábyrgjast fjármögnun og verður um leið í gegnum Vegagerðina stór hluthafi í fyrirtækinu þannig að ríkið ber áhættu bæði sem lánveitandi og (Forseti hringir.) eigandi þess hlutafélags sem á að taka að sér að (Forseti hringir.) koma framkvæmdinni á.