140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:05]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt, ríkið er með lánið, það er með ábyrgðirnar og það er hluthafi í gegnum Vegagerðina. Það er einmitt þess vegna sem umhverfis- og samgöngunefnd komst að því á sínum tíma að í ljósi þeirrar áhættu sem þarna fylgir og þeirra áætlana sem byggju að baki sem ekki standast skoðun væri eðlilegt að þetta verkefni færi í samgönguáætlun enda væri ekki hægt að flokka það sem einkaframkvæmd eins og Ríkisábyrgðasjóður staðfesti síðan. Þetta er opinber framkvæmd vegna þess að ríkið er beggja vegna borðs og allt um kring. Það er bara þannig, þetta er ríkisframkvæmd, það blasir við hverjum sem skoðar þetta og þess vegna er eðlilegast að verkefnið fari í samgönguáætlun. Ellegar mætti vel hugsa sér, eins og ég sagði hér áðan, að setja þessi þrenn göng, Vaðlaheiðargöng, Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng, inn í sama módelið og merkja þau öll sem einkaframkvæmd, þ.e. opinber framkvæmd í einkaframkvæmd. Við vinnum hlutina auðvitað ekki þannig, herra forseti. (Forseti hringir.) Eitt af því sem hefur verið gagnrýnt er þegar menn halda tvöfalt bókhald (Forseti hringir.) og ég styð ekki slíkt.