140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:07]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þau ummæli hans að það sé fráleitt að efasemdir um verklag við undirbúning þessarar gangagerðar lýsi einhverju sérstöku landsbyggðarhatri eða andstöðu við samgönguframkvæmdir annars staðar en í höfuðborginni. Það er ekki svo en ég skal viðurkenna að okkur sem búum við Faxaflóa og erum fulltrúar íbúa þaðan á þingi er oft legið á hálsi þegar við viljum tjá okkur um það sem gerist annars staðar að það mótist allt af sérstakri andúð á landsbyggðinni. Svo er auðvitað ekki. Ég held því reyndar fram að landsbyggðin sé ekki til, sá munur sé á Trékyllisvík og Akureyri að ekki verði með nokkrum hætti hægt að tengja íbúa þar saman í eina heild gagnvart íbúum á höfuðborgarsvæðinu, en það er allt önnur ella.

Ég vil aðeins halda áfram þeirri umræðu sem þeir hófu hv. þingmenn Birgir Ármannsson og Ásmundur Einar Daðason um verk okkar í samgöngunefnd. Það er auðvitað álitamál hvort við eigum að taka Vaðlaheiðargöngin inn. Segjum að það frumvarp sem hér er um að ræða verði samþykkt í einhverju horfi, a.m.k. fyrri greinin um að fjármálaráðherra megi veita lán, þar með er ekkert í frumvarpinu sem segir til um framkvæmdatímann eða hraðann. Þá er spurning hvort við eigum að taka það inn í samgönguáætlun og setja verkefninu ákveðinn tíma vegna þess, eins og hv. þingmaður sagði, er ekki lengur um einkaframkvæmd að ræða. Ég held að enginn hafi sagt það hér í dag að þetta væri einkaframkvæmd. Sumir viku sér undan þeirri spurningu og aðrir sögðu að hér væri um einhvers konar opinbera framkvæmd að ræða. Það sögðu bæði hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Róbert Marshall (Forseti hringir.) sem öll voru þó meðmælt framkvæmdinni.